17.03.1923
Neðri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í D-deild Alþingistíðinda. (3405)

38. mál, Löggildingarstofan

Fyrirspyrjandi (Lárus Helgason):

Jeg vil leyfa mjer að þakka hæstv. atvinnumálaráðherra (KIJ), hvað hann hefir svarað bæði skýrt og vel. Jeg skal bæta því við, að mín skoðun var ekki sú, að löggildingarstofan hefði ekki gert gagn á neinn hátt. En jeg og margir fleiri erum á því, að þetta sama mætti gera á öðrum grundvelli heldur en með þessari stofnun. Það má hafa eftirlit með mælitækjum á annan hátt en að setja upp skrifstofu með mörgum mönnum og reka þessa stofnun eins og hún hefir verið rekin. Annars býst jeg við að fá síðar tækifæri til að gera nánari grein fyrir skoðun minni á þessu máli, þegar frv. okkar hv. 1. þm. N.-M. (ÞorstJ) kemur til umræðu, og skal því ekki deila frekar um það að sinni.