26.03.1923
Neðri deild: 29. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í D-deild Alþingistíðinda. (3411)

41. mál, landhelgi og landhelgisgæsla

Forsætisráðherra (SE):

Um leið og jeg svara fyrirspurninni verð jeg lítið eitt að víkja að broti úr síðustu sögu þessa máls.

Eins og kunnugt er, var samþykt á Alþingi 1922 tillaga, er fór í þá átt, að Danir ljetu oss í tje frekari landhelgisgæslu en verið hafði undanfarið. Er núverandi stjórn tók við í mars, hafði fyrri stjórn þegar komið tillögu þessari á framfæri til dönsku stjórnarinnar. Þegar jeg fór til Kaupmannahafnar að loknu þingi, var verið að undirbúa málið, en þá mun þó ekki hafa verið búið að orða tilboð þau, sem danska stjórnin ætlaði að gera. En danska stjórnin lagði fyrir fund sambandslaganefndarinnar 1922 uppkast að samningi um landhelgisgæsluna.

Aðalinntak þessa samningsuppkasts var:

1. Að því var slegið föstu, að Danir samkvæmt 8. gr. sambandslaganna væru skyldir að hafa hjer í 10 mánuði landhelgisgæslu með einu skipi.

2. Að þeir um næstu þriggja ára tímabil ókeypis hafi 2 skip við landhelgisgæslu um tíma, er svarar til 15 mánaða fyrir eitt skip.

3. Og frekari landhelgisgæslu fyrir greiðslu, sem var ákveðin í samningnum eftir hjergreindum reglum.

Í samningsuppkastinu voru og ýms önnur ákvæði snertandi fyrirkomulag landhelgisgæslunnar á samningstímanum. Meiri hluti sambandslaganefndarinnar gerði nú nokkrar breytingar á samningsuppkastinu og lagði til, að að því yrði gengið með þeim breytingum, en minni hluti nefndarinnar, Bjarni frá Vogi og Einar Arnórsson, háskólakennarar, voru andvígir samningum, eins og þeir jafnan hafa verið, en gerðu þó til vara allmiklar breytingartillögur við það. Fundargerð sambandslaganefndarinnar 1922 hefir legið frammi í lestrarsalnum, og geri jeg ráð fyrir, að hv. þingmenn hafi kynt sjer hana, svo ekki sje ástæða að skýra frá henni í heild.

Einu atriði í fyrirkomulagi landhelgisgæslunnar samkvæmt nefndu samningsuppkasti var þannig varið, að stjórnin sá sjer ekki fært að svo stöddu að ganga að samningunum, og skal jeg nú víkja að því.

Í samningsuppkasti dönsku stjórnarinnar vora 6. og 7. gr. svo hljóðandi — með leyfi hæstv. forseta:

§ 6.Efter Konference med den islandske Regering giver Chefen for Fiskeriinspektionen nærmere Regler for den samlede Tjenestes Udförelse.

§ 7. Til Stötte for Fiskeriinspektionen paatager den islandske Regering sig at holde Damp- eller Motorfartöjer til Optræden af visse af fremmed Fiskeri særlig hjemsögte Kyststrækninger, hvorfra der snarest muligt skal kunne tilgaa Inspektionens Chef Meddelelse om Overtrædelsen. Disse Fartöjer og deres Betjening er med Hensyn til den nærmere Udförelse af deres Hverv underlagt Chefen for Fiskeriinspektionen.

Samkvæmt þessum greinum hafði íslenska stjórnin aðeins íhlutunarrjett um landhelgisgæsluna. Að vísu gerði meiri hluti nefndarinnar breytingartillögu við 6. gr., og samkvæmt þeirri breytingartillögu hljóðaði greinin þannig — með leyfi hæstv. forseta:

„Forsaavidt den islandske Regering maatte beslutte at holde Damp- eller Motorfartöjer til Stötte for Fiskeriinspektionen paa Söterritoriet, fastsættes Reglerne vedrörende Udförelsen af disse Fartöjers Hverv og deres Betjening af den islandske Regering efter Aftale med Chefen for Fiskeriinspektionen“.

En þrátt fyrir breytinguna virðist mega skilja greinina þannig, að íslenska landhelgisgæslan yrði aðeins til aðstoðar þeirri dönsku, en að ekki væri um sjálfstæða íslenska landhelgisgæslu að ræða.

Minni hluti nefndarinnar vildi aftur orða þessar greinar þannig — með leyfi hæstv. forseta:

„Den islandske Regering giver efter Konference med Chefen eller Chefeme for de tjenestegörende Skibe de nærmere Regler om Inspektionens Udförelse, deriblandt om Samarbejdet mellem de danske og islandske Inspektionsskibe“.

En samkvæmt þessu orðalagi átti íslenska stjórnin að hafa bæði umráð yfir dönsku og íslensku landhelgisgæslunni, sem var auðvitað mjög æskilegt.

Þegar jeg sigldi 26. nóvember í vetur, hafði jeg ásett mjer að fá nánari skýringu á áminstri grein í samningsuppkasti dönsku stjórnarinnar, og er jeg hitti danska forsætisráðherrann í desember, óskaði hann, að jeg kæmi til viðtals um landhelgisgæsluna, og var fundur hjá honum um hana nokkru síðar og sóttu þann fund, auk danska forsætisráðherrans, flotamálaráðherrann, direktörinn í flotamálaráðuneytinu, dönsku sambandslagamennirnir og nokkrir fleiri.

Meðal annars ljet jeg í ljós á þessum fundi, að jeg teldi heppilegt, að málinu væri ráðið til lykta með því að skiftast á nótum milli stjórnanna og gat þess, að um leið mundu skýrast atriði, sem óljós væru í samningsuppkastinu, og lagði áherslu á, að íslenska stjórnin yrði að hafa vissu um það, að hún gæti haft algerlega sjálfstæða íslenska landvörn, auðvitað í samvinnu við þá dönsku eftir samningunum. En á fundinum kom fram sú skoðun, en málið var þá auðvitað undir yfirvegun, að landhelgisgæslan yrði að vera undir einni stjórn og tvær sjálfstæðar landhelgisvarnir gæti tæplega verið um að ræða. í fundarlok bað forsætisráðherrann mig að gera uppkast að nótuskiftum milli stjórnanna, og afhenti jeg honum það uppkast 2 dögum síðar, og ljet þess um leið getið, að jeg byggist við, að stjórnin gæti, ef fallist yrði á þessa uppástungu mína, gengið að samningum áður en þingið kæmi saman.

Með brjefi, dags. 30. jan., mótteknu 2. febrúar, skýrði danski sendiherrann hjer mjer frá því, að stjórn hans myndi ganga að samningsuppkastinu með breytingum meiri hlutans, ef danski ríkisdagurinn veitti samþykki sitt á sínum tíma, og hjet um leið 2 smábreytingum, ef óskað yrði. 13. febr. skýrði jeg sendiherranum frá, að jeg mundi ekki geta gefið endanleg svör fyr en þingið kæmi saman.

Í brjefi, dags. 15. febr., biður sendiherrann um svar seinast 21. febr., svo að hægt væri að gera breytingartillögu við dönsku fjárlögin á rjettum tíma. Stjórnin hjer átti því næst tal við báðar sjávarútvegsnefndir um málið, rjett eftir að þingið kom saman, og skýrði hún þeim frá allri aðstöðu málsins. Og að þeim fundi loknum skrifaði jeg danska sendiherranum og bað hann að skýra stjórn sinni frá, að vegna atriða í samningsuppkastinu, sem danska stjórnin hafði lagt fyrir sambandslaganefndina, og með tilvísun til samtals í Kaupmannahöfn, gætu sum atriði samningsuppkastsins bent á, að samkvæmt því gætum við ekki haft sjálfstæða íslenska landvörn um samningstímann, en þessi skýlausu rjettindi, er vjer ættum vegna suværenitets landsins o. s. frv., gæti ekki verið að tala um að gefa frá sjer, þó um stuttan tíma væri, og tók fram, að ef danska stjórnin liti öðruvísi á þetta atriði en íslenska stjórnin, þá mundum vjer heldur verða án aukningar á landvörninni, en liti stjórnin eins á málið og íslenska stjórnin, þá mundi jeg leggja til við þingið, að gengið yrði að tilboðinu, en óskaði um leið, að málið yrði afgreitt í nótuformi og ljet fylgja með uppkast að nótuskiftum þeim, er jeg hafði afhent danska forsætisráðherranum í desembermánuði. Þessu brjefi svaraði svo danska stjórnin 2. mars og fjelst alveg á skoðun íslensku stjórnarinnar, en gat þess um leið, að of seint væri nú að gera breytingar á fjárlögunum dönsku þetta ár, en óskaði að vísa málinu til sambandslaganefndarinnar nú í sumar og óskaði þá jafnframt, að rætt væri um alla aðstöðuna í 8. gr. sambandslaganna.

Áður en jeg fer lengra inn á málið, þykir mjer rjett að þakka dönsku stjórninni fyrir hið skýlausa svar, er hún hefir gefið um skilning sinn á málinu.

Eins og þessi skýrsla mun sýna, verður nú af Dana hálfu, að minsta kosti á þessu ári, ekki meira en 10 mánaða landvörn. En þetta er fyrst nýlega kunnugt, og er það meðal annars ástæða til, að stjórnin hefir ekki sjerstaklega undirbúið frekari landvörn nú í ár en var síðasta ár, en þá var, auk dönsku landvarnanna, Þór og nokkrir mótorbátar.

Framkvæmdir í þá átt, sem lögin gera ráð fyrir, hafa því engar verið, nema ef leiga Þórs gæti heimfærst undir þær framkvæmdir, og hitt, að nú hafa verið af hálfu stjórnarinnar gerðar ráðstafanir í þá átt, að upplýst yrði áður en þingi lýkur, hvað bygging landvarnarskips, sem væri á stærð við stóran botnvörpung, mundi kosta.

En áður en jeg vík nánar að því atriði, hvað jeg tel, að gera beri í þessu máli, vil jeg enn frekar minnast á samningstilboð dönsku stjórnarinnar um frekari landvörn, því eins og jeg gat um áður, má vel vera, að ríkisdagurinn danski, ef þingið óskar þess enn, veiti fje til aukinnar landhelgisgæslu eins og segir í samningsuppkastinu. En jeg verð að játa það, að mjer finst það ekki vel viðkunnanlegt að sækja það mál með alt of miklu kappi, en þætti hins vegar rjettast, að við bæðum ekki sambandsþjóð vora um frekari landhelgisgæslu en vjer höfum kröfu til, en legðum hins vegar áherslu á það að efla vora eigin landvörn, eftir því sem efnin frekast leyfðu.

En þá er jeg auðvitað kominn að örðugasta hjallanum. Hvað leyfa fjárhagsástæður vorar nú að gera í landhelgismálinu? Og þá kemur sjerstaklega það spursmál fram, hvort nú sje kominn tími til þess fyrir stjórnina að nota heimildina, sem þingið gaf stjórninni til þess að kaupa landvarnarskip. Jeg geri nú ráð fyrir, að þegar kostnaðaráætlun sú, er jeg á von á, kemur, þá muni stjórnin á einhvern hátt bera sig saman við þingið um þetta mál. En frá mínu brjósti verð jeg að segja það, að mjer virðist það vera með ári hverju óumflýjanleg nauðsyn að eignast slíkt skip, ekki aðeins vegna landhelgisgæslunnar, heldur einnig vegna lögreglueftirlits yfirleitt við strendur landsins. Og satt að segja, virðist mjer engin minni nauðsyn á slíku skipi heldur en nauðsynin var á Eimskipafjelaginu, sem allir viðurkenna.

En auðvitað getur stjórnin ekki tekið afstöðu til málanna fyr en gögnin eru komin fram á borðið, og þau væru nú komin fram á borðið, ef ekki hefði verið búist við aukningunni, sem jeg mintist á hjer að framan.

Um síðara atriði fyrirspurnarinnar er þetta að segja:

Fiskifjelagsdeildin Báran á Akranesi hafði til umræðu á fundi 28. des. 1919 friðun alls Faxaflóa fyrir botnvörpuveiðum. Deildin sendi erindið til stjórnar Fiskifjelagsins, sem sendi það 22. febr. 1919 til stjórnarráðsins. Á Alþingi 1919 var 15. sept. samþykt þingsályktun í málinu, svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ráðuneytið að gera tilraunir til þess að fá samningum um landhelgislínuna breytt þannig, að hún verði yfirleitt færð út og landhelgissvæðið stækkað, en sjerstaklega þó, að landhelgissvæðið taki yfir alla flóa og firði og helstu bátamið“.

27. nóv. skrifaði svo íslenska stjórnin danska utanríkisráðuneytinu um mál þetta og óskaði aðstoðar þess. Með brjefi, dags. 22. apríl 1920, skýrði utanríkisráðuneytið danska stjórninni frá, að það hefði beðið sendiherrasveitina í London og Washington að grenslast eftir, hverjar horfur muni á því, að hægt væri að leiða mál þetta til lykta með alþjóðasamningi.

Í desember 1920 skrifar danska utanríkisráðuneytið enn um málið og sendir skýrslu frá sendiherrasveitinni í Washington og London.

Samkvæmt þessu virðist ekki muni von um að koma til leiðar stækkun landhelgissvæðisins. En til mála virðist hafa komið í Ameríku sá möguleiki að banna botnvörpuveiðar við Ísland nokkuð fyrir utan landhelgislínuna.

Jeg skal játa, að jeg hafði ekki sjeð, hvað þessu máli leið fyr en jeg kom til Hafnar nú í desember, og kom þá til tals að taka málið upp aftur, en vissa þurfti áður að vera um það, að við værum reiðubúnir að láta hið sama ganga yfir vora eigin botnvörpunga eins og annara. Sem sagt, í sjálfu sjer er jeg fús til að taka málið upp, en í augnablikinu tel jeg mjög vonlítið um árangur.