26.03.1923
Neðri deild: 29. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í D-deild Alþingistíðinda. (3412)

41. mál, landhelgi og landhelgisgæsla

Hákon Kristófersson:

Hv. þm. Borgf. (PO) hefir farið svo ítarlegum orðum um þessa fyrirspurn okkar, að jeg þarf þar litlu við að bæta. Hefir nú hæstv. forsrh. (SE) svarað, og gladdi það mig, að hann skuli vera því fylgjandi, að við tökum málið í okkar hendur. En aðalatriðið er, hvort okkur sje þetta mögulegt. En þó þetta atriði hnígi ekki beinlínis undir fyrirspurnina, þá vona jeg, að mjer leyfist að víkja að því nokkrum orðum, hversu komið er með landhelgissjóðinn. Hann er, eins og hv. þm. vita, stofnaður með lögum 10. nóv. 1913. Renna í hann sektir fyrir ólöglega veiði, sem oft hafa verið mjög háar. Má því ætla, að sjóður þessi sje allmikill orðinn. Vildi jeg nú beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjrh. (MagnJ), hve stór hann er orðinn, því að undir honum er það mikið komið, hvenær við getum tekið málið í okkar hendur. Enn fremur vildi jeg vita, hvort fyrirmælum laganna hefir verið hlýtt, um að ávaxta þennan sjóð á þeim stað, sem það átti að gera, í Landsbankanum. Hafa þær sögur gengið, sem jeg vona, að sjeu Gróusögur, að sjóður þessi sje nú uppetinn, hafi verið tekinn til þess að greiða með honum óhjákvæmilegar greiðslur, en á meðan ekki er komin staðfesting á þessu frá hæstv. fjrh. (MagnJ), skal jeg ekki gera það að umtalsefni.