26.03.1923
Neðri deild: 29. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í D-deild Alþingistíðinda. (3413)

41. mál, landhelgi og landhelgisgæsla

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Hv. þm. Barð. (HK) átti að beina fyrirspurn sinni um landhelgissjóðinn til atvrh., er hefir stjórn hans með höndum, en með því hann er fjarverandi, skal jeg láta hv. þm. í tje þær upplýsingar, er jeg hefi við hendina.

Landhelgissjóðurinn nam nú við árslok 1921 kr. 621889,74; þar af var meira en helmingur viðbót árið 1921, því þá voru sektir óvenjumiklar, en eftir því sem meiri áhersla er lögð á að verja landhelgina, má búast við minni sektum, og tel jeg það betur farið en að mikil brot eigi sjer stað, þótt þar með fylgi töluvert sektarfje.

Hvað snertir ávöxtun sjóðsins, talaði hv. þm. Barð. (HK) með ýmiskonar fjálgleik og sagðist ekki trúa því fleipri, sem um það væri haft. Þetta eru óþarfa umbúðir, þar sem það er hv. þm. sem mörgum öðrum vitanlegt, að sjóðurinn er „uppetinn“, sem kallað er, lánaður ríkissjóði, sumpart í tíð núverandi stjórnar, sumpart þeirrar fyrverandi. Á fjórða hundrað þúsund kr. voru í tíð fyrv. stjórnar innborgaðar í ríkissjóð og uppbrúkaðar, svo lán hefði þurft að taka, á 7%, til þess að leggja fjeð í Landsbankann, á 5% rentu, enda hefir það enn ekki verið gert, en má gera, þegar maður tekur við, sem álítur slíkt búhnykk.

Eins og hann getur sjálfur lesið í landsreikningunum 1920–21, þá greiðist sektarfjeð í ríkissjóð og stendur þar fyrst um sinn á vöxtum með betri kjörum en í Landsbankanum. Auðvitað verður sjóðurinn fluttur þangað á sínum tíma og lagður þar inn. Fyrir utan betri vaxtakjör, bæði fyrir landhelgissjóð og ríkissjóð, er hjer eiginlega bara um bókfærsluspursmál að ræða. Það er hvort sem er nákvæmlega jafnmikið eða lítið fje fyrir hendi til skipakaupa.

Annar örðugleikinn á því að ráðast í skipakaupin nú er aukakostnaður við yfirfærslu peninga, sem verður hinn sami, hvort sem sjóðurinn ávaxtast í ríkissjóði eða Landsbankanum.