26.03.1923
Neðri deild: 29. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í D-deild Alþingistíðinda. (3415)

41. mál, landhelgi og landhelgisgæsla

Hákon Kristófersson:

Hæstv. fjrh. (MagnJ) mintist á, að jeg hefði verið með undarlegan fjálgleik í þessu máli. Jeg notaði aðeins þau orð, sem jeg áleit við eiga, án þess að jeg setti þau fram með neinum fjálgleik. Áleit heldur ekki rjett að koma með neinar ásakanir í garð hæstv. ráðherra, fyr en jeg hefði heyrt svar hans og á því sjeð, hvað satt væri í þessu. Svar hans var óskýrt, óákveðið og hált, eins og við var að búast úr þeirri átt. Landsreikningurinn, sem fyrir hendi er, sýnir aðeins hálfan sannleikann, þ. e. a. s. að á honum má sjá, hvað er eða var innistandandi í Landsbankanum, sem mun hafa verið rúmlega 260 þús. kr. En þótt svo hefði nú verið, að jeg hefði getað sjeð það, sem jeg vildi fá að vita, í landsreikningnum, þá er hann ekki nema í höndum fárra landsmanna. Þetta mál er þannig vaxið, að það á að vera almenningi kunnugt; jeg verð því að telja alla launung frá stjórnarinnar hálfu, hvað þetta snertir, alveg óhafandi. Heyrst hefir, að tekin hafi verið út úr Landsbankanum upphæð af sektarfjenu, sem þar stóð inni. Er sú saga sönn?

Jeg vona, að hæstv. ráðherra (MagnJ) telji það ekki óþarfa fjálgleik af mjer, þótt jeg spyrji, hvor stjórnin hafi byrjað á þessari tilhögun á sektarfjenu. Og kæmi mjer ekki á óvart, þótt það væri þessi stjórn.

Hæstv. ráðherra (MagnJ) mintist á, að ekki mætti búast við of miklu sektarfje; inn á það fór jeg ekkert í minni ræðu, og þurfti því ekki að blanda því í umræðumar, hverjar sektirnar yrðu framvegis. Þær fara vitanlega eftir ýmsum atvikum, er liggja frammi í tímanum, og um það getur hæstvirt stjórn vitanlega ekkert sagt, enda fór jeg ekki fram á það. Jeg spurði aðeins um, hvort stjórnin hefði farið með það fje, sem þegar var fengið, eins og lög stóðu til, en annað ekki, og vænti því gleggri svara frá hæstv. ráðh. (MagnJ) en áður við þessari spurningu.