26.03.1923
Neðri deild: 29. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í D-deild Alþingistíðinda. (3416)

41. mál, landhelgi og landhelgisgæsla

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Hv. þm. Barð. (HK) þótti eitthvað við mig. En það var ekki til að móðgast af, þó jeg nefndi fjálgleik. Jeg er ekki kunnur að því að móðga, hvorki háttvirta þingmenn nje aðra, að raunalausu, síst þegar jeg er að gefa honum upplýsingar fyrir hönd hæstv. atvinnumálaráðherra, sem enn er fjarverandi. Mjer fanst hann hafa of mikið af óþarfa umbúðum utan um hluti, sem honum eru vel kunnir. Meginið af þeim upplýsingum, sem jeg gaf honum, liggur ljóst fyrir í sjálfum landsreikningnum, sem er opinber bók, og getur hann sjeð þetta þar. Í reikningnum 1920, á bls. 13, er sektarupphæðin talin kr. 47339,46 og í reikningnum fyrir árið 1921, bls. 13, kr. 325827. Þessi upphæð var í tíð fyrv. stjórnar runnin inn í ríkissjóðinn, og hefir landhelgissjóðurinn fengið viðurkenning fyrir, að hann ætti þetta hjá ríkissjóði, með betri vaxtakjörum, hærri rentum en í Landsbankanum, og er ekkert lögbrot framið með þessu. Hitt væri hreinn Bakkabræðraháttur, að taka lán í Landsbankanum á 7% og leggja aftur fje inn í hann gegn 41/2%. Þetta hefir ekki skeð í tíð núverandi stjórnar, en mjer virðist rjett að draga þessar innborganir til Landsbankans, eins og sakir standa. Þessum peningum er alveg eins vel fyrir komið eins og þótt þeir væru í Landsbankanum, án þess að jeg sje að beina nokkurri meiningu að honum.