26.03.1923
Neðri deild: 29. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í D-deild Alþingistíðinda. (3418)

41. mál, landhelgi og landhelgisgæsla

Fyrirspyrjandi (Pjetur Ottesen):

Jeg vil ekki skiljast svo við þetta mál, að votta eigi hæstv. forsrh. (SE) þakkir fyrir hin greiðu svör hans og góðu upplýsingar og undirtektir um skjótar framkvæmdir á þessu mikla nauðsynjamáli. Viðvíkjandi skipskaupunum til strandvarnanna, þá tel jeg sjálfsagt og rjett að bíða þangað til kostnaðaráætlun sú, sem hæstv. forsrh. gat um, að væntanleg væri, kemur, og það af því, að hann taldi víst, að hún kæmi mjög bráðlega, eða áður en þingi sliti. En hinsvegar er enginn vafi á því, að stjórnin hefir fulla heimild í lögum til að kaupa eða láta byggja strandvarnarskip, án þess að bera það nokkuð undir þingið. En, sem sagt, jeg tel sjálfsagt að bíða eftir kostnaðaráætluninni.

Þá vil jeg þakka, hversu vel hæstv. ráðherra tók í það að láta rannsaka sögur þær, sem gengið hafa um hinn slælega embættisrekstur á Norðurlandi á síðasta sumri í sambandi við framkvæmd fiskveiðalaganna, um sektir fyrir brot á þeim, innheimtu tolla o. fl.