26.03.1923
Neðri deild: 29. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í D-deild Alþingistíðinda. (3421)

41. mál, landhelgi og landhelgisgæsla

Jón Þorláksson:

Samkvæmt landsreikningnum var landhelgissjóðurinn í árslok 1920 kr. 190907,37, og sektarfje fyrir það ár er talið kr. 47339,46. Í landsreikningnum 1921 er upphæðin í landhelgissjóði talin að vera kr. 265375,55, og er ekki hægt að sjá annað en að þessi upphæð hafi staðið inni í Landsbankanum. Því að á skrá yfir skuldir ríkissjóðs er engin skuld talin við landhelgissjóðinn. Nú er auðskilið á svörum hæstv. fjrh. (MagnJ), að ekki er enn búið að borga sektarfjeð fyrir árin 1921 og 1922 inn í landhelgissjóðinn. Um þetta verður ekki annað sagt en að það ber vott um, að ríkissjóður hafi ekki staðið svo, að þetta þætti fært. En jeg vil biðja um afdráttarlaust svar við þeirri spurningu minni, hvort tekið hafi verið út úr Landsbankanum nokkuð af því fje landhelgissjóðsins, sem búið var að borga þangað inn í ársbyrjun 1921, til notkunar í þarfir ríkissjóðs. (Fjrh. MagnJ: Já, það hefir verið gert).