09.05.1923
Neðri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í D-deild Alþingistíðinda. (3427)

62. mál, steinolíueinkasalan

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Það er jafnan svo, þegar tveir deila, að hvorum þykir sinn málstaður góður. Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) felst ekki á mínar ástæður í þessu máli, og hann hefir heldur eigi haggað minni skoðun á því. Það er ekki rjett hjá honum, að aðalástæðan fyrir einkasöluheimildinni væri sú, að verslun með steinolíu væri ókleif. Hitt var einnig til sem ástæða, og skýrt tekin fram af frsm. þá, að þetta væri líka tekjulind fyrir ríkissjóð, og þá er hún það enn. Það er og satt, að það eru fleiri vörur, sem gætu komið til greina, að teknar væru til einkasölu, t. d. kol og salt. Mjer væri nær að ætla, að kol hefðu fengist, meðan stríðið var, og fengjust nú hjer með betri kjörum, ef það hefði orðið úr samningum 1911, eins og milliþinganefndin í fjármálum vildi þá láta gera við alþekt kolafirma á Skotlandi.

Jeg get ekki skilið, hvernig hv. þm. (JakM) getur haldið því fram, að ekki hafi verið til „formel“ heimild fyrir stjórnina að gera þetta. Jú, heimildin var bæði „formel“ og efnisleg; stjórnin var siðferðilega skyld til að koma lögunum í framkvæmd. Hefði jeg ekki gert það, er jeg alveg viss um, að einhver þm. hefði orðið til þess að koma fram með beint vantraust á stjórnina fyrir vanræksluna, og þá hefði jeg haft fátt til varnar.

Hv. þm. (JakM) talaði um það, að ástæðurnar fyrir heimildinni væru burtu fallnar, en þetta álít jeg alls ekki rjett sjeð. Jeg veit ekki, til hvers lög eru þá sett, ef stjórnin á ekki að fram fylgja þeim og fara eftir því, sem þau mæla fyrir. Og þótt þessi heimild væri eigi notuð strax, hefði það verið illverjandi af núverandi stjórn að taka eigi til lit til þessara heimildarlaga eða draga lengur að koma þeim í framkvæmd, þar sem vitanlegt var, að ástæða var til þess, og þau giltu enn, eins og ætlast var til, er þau voru sett, að þau stæðu lengi.

Þá segir þessi sami hv. þm. (JakM), að þingið sje á móti allri einkasölu. Hvar hefir það sýnt sig? Jeg hefi í fyrri ræðu minni sannað hið gagnstæða. En þingið hefir tjáð sig mótfallið einkasölu á fleiri einstökum vörum, svo sem kornvöru og salti. Þó er að mínu áliti full ástæða til, að ríkið tæki að sjer saltverslunina, því nýlega var hjer svo komið austanlands, að alveg var saltlaust orðið, þrátt fyrir þá frjálsu samkepni, sem hefir átt sjer stað í verslun með þessa vöru. Get jeg ekki sjeð annað en þess muni skamt að bíða, að þing og stjórn verði að fara að hlutast til um þessa verslunarvöru, ásamt ýmsum fleiri, ef til vill.

Hv. þm. (JakM) telur, að engar raddir hafi komið fram um einkasölu á steinolíu á síðasta þingi nje síðan, og segir mig hafa gengið þegjandi að þessu verki. Þessu neita jeg alveg. Það hafa eigi allfáir þm. komið til mín og hvatt mig til þess að neyta þessara heimildarlaga, og hvað þýða tillögur þingsins frá í fyrra, annað en að veita stjórninni fult sjálfdæmi til þess að haga þessu þann veg, sem hún teldi heppilegast vera? Hví mótmælti hv. þm. (JakM) ekki nefndaráliti minni hluta viðskiftamálanefndar, og jafnvel meiri hl. líka? Þá hefði þingviljinn getað komið greinilega í ljós, og hann hefði verið mín megin. Jeg hefi hvorki þagað yfir neinu nje leynt neinu þessu viðvíkjandi, og jeg er alveg óhræddur við allar afleiðingar af þessum samningi, sem jeg hefi gert.

Hv. þm. (JakM) segir, að jeg hafi skelt þessu á áð óvörum rjett fyrir þing, — líklega þá til þess að óvirða væntanlegan vilja þingsins. Jeg get varla vænst þess, að þm. (JakM) telji mig svo grunnhygginn, að jeg hefði haldið það fært að leyna þessu fyrir þinginu, og hefði jeg óttast þingviljann, sem hann virðist ætla, að jeg geri, hefði verið rjettara fyrir mig að koma þessu á miklu fyr, til þess þá, að farið væri að fyrnast yfir þetta ódæði mitt, þegar liði að þingsetningu. Að jeg læt samninginn ganga í gildi rjett fyrir þing, sýnir einmitt alveg ljóslega, að jeg hefi hreina samvisku í þessu máli. Nei, ástæðan var sú, að samningar voru fullgerðir þann 10. ágúst, og til þess að virðast eigi vilja þrengja um of að keppinautunum í þessu, setti jeg 6 mánaða frest, áður einkasalan gengi í gildi. Landsverslunarforstjórinn áleit, að þriggja mánaða frestur hefði nægt, og nú sje jeg eftir því að hafa eigi haft styttri frestinn, úr því einmitt þetta er haft til árása á mig, sem jeg hefi vel gert í þessu máli.