09.05.1923
Neðri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í D-deild Alþingistíðinda. (3428)

62. mál, steinolíueinkasalan

Jón Auðunn Jónsson:

*) Það er alveg rjett hjá hv. 1. þm. Reykv. (JakM), að það lá í orðum og umræðum á þingi í fyrra, að menn væru alment mótfallnir einkasölu, nema brýn nauðsyn ræki til þess, og við það voru og heimildarlögin miðuð á sínum tíma. (Atvrh. KIJ: Þessu neita jeg; eða hvar kom þetta fram í umræðum?). Hæstv. ráðherra (KIJ) getur ekki neitað sínum eigin orðum þá; það var ekki átt við aðra einokun en þá, sem þegar var komin á. Þá talar hæstv. atvrh. (KJJ) um einokun á kolum og salti. Jeg vænti þó, að hún komist ekki á fyr en frv. um það hefir verið afgreitt frá þinginu.

Þá vil jeg koma með þá fyrirspurn til hæstv. stjórnar, við hvað mörg fjelög hafi verið leitað samninga áður en þessi samningur var gerður um steinolíusöluna. Jeg vil ekki ætla, að samningur hafi verið gerður við þetta eina fjelag, án þess að gefa öðrum kost á að koma með tilboð. Jeg vil og sjerstaklega mótmæla því í ræðu hæstv. atvrh. (KIJ), að landið megi ekki missa arðinn af steinolíuversluninni. Það, að stjórnin tekur steinolíuverslunina og gerir hana að ríkiseinokun í þeim tilgangi að afla ríkissjóði tekna af henni á kostnað sjávarútvegsins, tel jeg hreinasta gerræði. Það er enginn efi á því, að þessum atvinnuvegi væri gerð meiri þægindi í því að leyfa frjálsa samkepni í kaupum og sölu á þessari vöru, heldur en að ríkið taki hana til einkasölu í gróðaskyni. Það er aftur á móti alt öðru máli að gegna um ýmsar óþarfavörur, og þar er jeg því meðmæltur, að ríkið megi græða á þeim, en það er ótækt með nauðsynjavörur og má alls ekki eiga sjer stað. Sjávarútvegurinn stendur nú allhöllum fæti, og því er allsendis ófært, að ríkið taki stórgróða af þeim vörum, sem hann þarfnast einna mest. Þess vegna vil jeg mótmæla því sem fastast, að nokkur einokun eigi sjer stað, sem hafi stórgróða á kostnað atvinnuvega landsins. Þá vil jeg taka undir kröfu hv. þm. Barð. (HK), að samningurinn um steinolíusöluna verði lagður fram í fleiri eintökum og í íslenskri þýðingu, sem væntanlega hlýtur að vera til af honum, þar sem það er vitanlegt, að margir þm. skilja illa eða alls ekki enska tungu.

*) JAJ hefir ekki yfirlesið ræður sínar í þessu máli.