22.03.1923
Neðri deild: 26. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

21. mál, ríkisskuldabréf

Jón Þorláksson:

Það má ef til vill segja, að seint sje að bera fram aths. við þetta frv. nú við síðustu umr. þess í þinginu. En jeg ætla nú samt að hætta á það. Mjer finst sjerstaklega athugavert að lögleiða, að lán þau, sem ríkissjóður tekur, sjeu afborgunarlaus. Á meðan ákvæðum laganna verður fylgt á ekkert að borgast af lánunum fyrri en þau eru fallin öll í gjalddaga. eftir 25 ár frá lántökudegi. Ef ekki eru gerðar aðrar ráðstafanir af ríkisstjórnarinnar hálfu, verður þá að ráðast í nýjar lántökur til að borga hin eldri. Þetta verð jeg að telja vanhugsaða ráðstöfun, er leiði út á óheppilega braut. Því mun verða svarað, að ríkisstjórnin geti keypt skuldabrjefin á frjálsum markaði og afborgið lánin á þann hátt. En þegar fjárlög eru samin, er jafnan aðeins gert ráð fyrir lögskyldum afborgunum, og hæpið að aðrar afborganir verði teknar uppá áætlun. Frv. getur því leitt til ógætilegri fjármálastjórnar en áður hefir verið í þessu landi. Þetta gæti þó gengið, ef um leið hefðu verið stofnaðir með lögum sjerstakir afborgunarsjóðir af ríkisskuldum, eins og í enskumælandi löndum. En sú tilhögun er algerlega óþekt hjer á landi, enda ekkert orð í þá átt í frv.

Það virðist vera óheppilegt að binda hendur stjórnarinnar um vaxtakjör þessara lána, sem tekin eru handa ríkissjóði. Það getur vel verið, að á næstu árum fáist ekki fje með lægri vöxtum en ákveðnir eru í frv. eins og það kom frá Ed., 41/2% og þar yfir, en það er miðað við núverandi ástand og óþarft að gera ráð fyrir, að vextir geti eigi orðið lægri í framtíðinni. Áður hafa þeir þó verið að minsta kosti 4 af hundraði; tel jeg því varhugavert að lögbinda þetta.

Loks vil jeg segja það um frv. í heild sinni, að jeg sje ekki, að það geri annað en að binda hendur stjórnarinnar sjálfrar um atriði, sem betur væri að hún hefði óbundnar hendur um. Og virðist því óheppilegt að setja þau lög að óþörfu. Stjórnin getur sjálf sett takmarkanir, sem við eiga á hverjum tíma, án slíkra laga.

Viðvíkjandi innlausnarskyldunni, að skuldabrjefin eiga öll að greiðast í einu eftir 25 ár, má geta þess, að auk þess sem það leiðir til ógætilegrar fjármálastefnu, þá gerir þetta skuldabrjefin óútgengilegri innanlands. Menn eru hjer óvanir þessu. Samkynja brjef hafa áður ávalt hjer á landi verið innleysanleg með inndrætti á vissu árabili, þannig að maður, sem kaupir brjefin, þarf ekki að álíta þau óinnleysanleg til síðasta dags, heldur verði þau smám saman innleyst. Einstaklingar verða því ófúsari að kaupa brjefin með því innlausnarskilyrði, sem frv. ákveður (25 ára frest). — Hjer má ekki miða við aðstöðu í öðrum löndum, þar sem allir vita, að skuldabrjef, sem skráð eru í kauphöllum, eru seljanleg fyrir gangverð hvenær sem eigandi þarf á peningunum að halda. Þessa geta menn ekki vænst hjer á landi.

Niðurstaðan verður þá sú, að frumvarp þetta er óþarft, og athugavert að gera það að lögum, Jeg vil þess vegna leyfa mjer að bera fram till. til rökstuddrar dagskrár, sem jeg afhendi hæstv. forseta, þess efnis að vísa frv. frá umr.