09.05.1923
Neðri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í D-deild Alþingistíðinda. (3430)

62. mál, steinolíueinkasalan

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Hv. þm. Ísaf. (JAJ) spurði, hvað margra fjelaga hefði verið leitað til. Jeg get nú gefið upplýsingar um, að þau voru þrjú, auk þess, sem endanlegu samningarnir tókust við, og eitt þeirra að minsta kosti, The Texas Oil Co., mjög stórt og voldugt fjelag.

Hverjar ástæður voru fyrir því, að landsverslunin sneri sjer ekki til danska steinolíufjelagsins, er mjer ekki kunnugt um, en jeg hafði enga ástæðu til að átelja það eða óska eftir samningum við það fjelag. Til þess hafði jeg of mikla reynslu af því. Eins og jeg hefi getið um, sneri milliþinganefndin frá 1911 sjer til fjelagsins í samningaumleitunum um sölu á steinolíu. Fjelagið sendi hingað upp tvo menn til að semja. En fyrsta tilboðið var svo algerlega óaðgengilegt, að við allir nefndarmenn höfnuðum því í einu hljóði, án þess að taka okkur tíma til að athuga það nánar sameiginlega. Síðar fengum við tvisvar eða þrisvar aðgengilegri tilboð, en þau voru jafnan tekin aftur daginn eftir. Gæti jeg sagt margt frá þeim samningaumleitunum, en sleppi því. Það var auðsjeð, að alt var leikur.

Jeg hafði því enga löngun til að fá sama leikinn upp aftur, einkum ef sami maðurinn yrði sendur hingað til samningsumleitana, sem þá var fyrir af þeim tveimur. Og hafi hann verið óþýður fyrir rúmum 10 árum, er engin ástæða til að ætla, að hann hafi batnað með aldrinum.

Hv. þm. Ísaf. (JAJ) vildi fullyrða, að einkasalan á steinolíu væri rekin á kostnað sjávarútvegsins. Jeg hygg þetta öfugt við það, sem rjett er. Með einkasölunni eru útgerðinni ávalt trygðar nægar birgðir af góðri steinolíu með sanngjörnu verðlagi, gagnstætt því, sem oft hefir verið. Jeg er sannfærður um, að þessi muni raunin á verða jafnan eftirleiðis. Að vísu eru samningarnir nýlega gengnir í gildi og ekki farnir að sýna sig ennþá, en á næsta þingi mun reynslan hafa skorið úr. Komi það þá í ljós, að samningarnir sjeu óhagstæðir, er það á minni ábyrgð, og hygg jeg, að þingið muni þá hafa fulla einurð til að ganga á milli bols og höfuðs á mjer.

Þá sagði sami hv. þm., að olían mundi verða dýrari en ella. Það er alls ekki rjett. Milliliðakostnaðurinn hverfur með þessu fyrirkomulagi, og er það ágóði ríkissjóðs. En þeim hv. þm., sem bera hag steinolíufjelagsins svo mjög fyrir brjósti, þykir sennilega rjettara, að sá gróði lendi í vasa þess, en ekki ríkissjóðs.

Hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) sagði, að jeg hefði gefið litlar upplýsingar um það, sem gerst hefði í málinu síðan 1917. (JÞ: Síðan í fyrravetur). Það hefir ekki gerst annað síðan í fyrravetur en að þessi umræddi samningur var gerður, svo sem jeg hefi skýrt frá. Tilboða var leitað, meðal annars hjá British Petroleum Co., og tókust samningar við það fjelag. Hv. þm. bar það sama fram, að steinolíufjelaginu hefði ekki verið gefinn kostur á að koma með tilboð, en því hefi jeg svarað áður. Kvað hann það grein af stórum stofni, en sama má segja um þetta fjelag, það er ein grein af stórum stofni, nefnilega Anglo Persian Co. Ef þetta eru meðmæli með steinolíufjelaginu, á það einnig við um breska fjelagið. Hv. þm. sagði, að ef til vill væri engin ástæða til að bera vinarhug til steinolíufjelagsins. Jeg skal ekki dæma um það og hefi ekkert út í það mál farið, þó jeg reyndar hefði haft ástæðu til þess, út af árás sumra blaða á mig út úr þessu máli, en ef hv. þm. vildu lesa Alþingistíðindin frá 1911, 1912 og 1917, mundi hann ekki verða hrifinn af þeim dómi, sem fjelagið fær þar. Þar kveða sumir þingmenn svo sterklega að orði í garð fjelagsins, að fátítt mun að sjá jafndjúpt tekið í árinni.

Þá gat sami hv. þm. þess, að þetta hefði vakið eftirtekt í Bandaríkjunum. Kynnu menn þar því illa, að gengið hefði verið fram hjá þeim, og væri það trú margra manna, að þetta hefði valdið miklu um hina gífurlegu hækkun á ullartollinum. En í því er engin hæfa. Í þessu hefi jeg fyrir mjer orð sendiherra Dana í Washington. Í brjefi, rituðu í febrúar, getur hann þess, að hann hafi orðið var við, að stjórn Bandaríkjanna þyki leitt, að fjelögum þar hafi ekki verið gefinn kostur á að koma með tilboð um sölu á steinolíu. En hann segir, að ef til vill mætti svara þeirri ákæru á þá leið, að þar sem Bandaríkin hefðu nýlega lagt háan toll á innflutta ull, mætti ef til vill skoða þetta sem „repressalia“ af hendi íslensku stjórnarinnar. Danski sendiherrann þar, einhver helsti diplomat Dana, veit sýnilega ekki, og þá heldur ekki stjórn Bandaríkjanna, hve nær samningurinn um einkasöluna er gerður, en telur hann yngri en samþykt ullartollsins, sem rjett mun vera. Hann er ekki heldur kunnugri málinu en svo, að hann ætlar, að samningurinn sje gerður til 5 ára.

Að þetta hafi ekki vakið neinn sjerstaklegan óhug í Bandaríkjunum, má einnig sanna á annan hátt. Sendiherra Bandaríkjanna í Kaupmannahöfn, dr. Prince, hefir borið sig upp undan því við dönsku stjórnina, að amerískum fjelögum hafi ekki verið gefinn kostur á að gera tilboð um steinolíusöluna. Það var þó leitað til þriggja fjelaga í Bandaríkjunum, þó að honum sje það ekki kunnugt. Mun þetta sennilega stafa af því, að forstjóri danska steinolíufjelagsins hefir kvartað um það við hann. Sendiherrann átti tal við utanríkisráðherra Dana, og hefir ráðherrann ritað stjórninni hjer í tilefni af því. Getur hann þess, að sendiherrann hafi komið á sinn fund og mælst til þess, að amerískum fjelögum væri gefinn kostur á að taka þátt í samkepninni, þegar samningurinn við breska fjelagið er fallinn úr gildi. Lýkur hann brjefi sínu á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Jeg skal tilföje, at Gesandtens Henvendelse ikke havde Karakter af en Klage, men kun en Henstilling af nævnte Indhold“.

Það er því engin ástæða til að vera hræddur við Bandaríkin út af þessu máli, og alt hjal um samband þessa máls við hækkun ullartollsins er blátt áfram tóm vitleysa.

Hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) tók það sjerstaklega fram, að á síðasta þingi hefði engum komið til hugar, að einkasölu á steinolíu yrði skelt á. Lagði hann mikið upp úr ummælum mínum á síðasta þingi í þessu efni. En jeg veit ekki til, að jeg hafi þá dulið neitt vísvitandi. Jeg gat ekki átt við aðrar vörur en kom og því um líkt; gat hvorki átt við tóbak nje steinolíu, sem lög heimila einkasölu á. Þetta hygg jeg, að jeg hafi tekið fram, þó að það hafi fallið úr ræðunni og jeg gleymt að bæta því aftur inn í. Jeg get ekki álitið, að aðrir menn hafi leyfi til að skilja ummæli mín öðruvísi en jeg skil þau og hefi jafnan skilið. Þetta er jeg annars búinn að margtaka fram, og ætti ekki að þurfa að gera það enn einu sinni.

Það er annars undarlegt, að hv. þm. (JÞ) skyldi alveg ganga fram hjá nefndarálitunum, sem jeg hefi svo skýrlega sýnt fram á, að væru mjer eindregið í vil, úr því hann fór að minnast á þetta. Þar er ótvírætt gert ráð fyrir einkasölu á steinolíu. (JÞ: Ekki í nál. meiri hlutans). Jú, tvímælalaust einnig í því nál.

Hv. þm. hjelt því fram, að samningar um einkasöluna mundu hafa verið byrjaðir áður en þingi sleit í fyrra. Ekki var mjer kunnugt um það. En hitt vissu allir, að þá lágu fyrir uppdrættir að olíugeymum, og gerði jeg ráð fyrir, að þeir væru frá fjelagi því, sem landsverslun hafði skift við, og það munu allir hafa vitað, hv. þm. eigi síður en aðrir, því líklega gera slíkir uppdrættir sig ekki sjálfir. En að sjerstakir samningar væru á döfinni, vissi jeg ekki.

Enn gat hv. þm. þess, að þetta væri pólitískt mál, og hefði Framsóknarflokkurinn krafist, að einkasalan kæmist á. Það er engum blöðum um það að fletta, að Framsóknarflokkurinn, sem í eru 15 þingmenn, hefir ríkiseinkasölu á vissum vörutegundum á stefnuskrá sinni. En hvernig víkur því þá við, að hv. 1. þm. Reykv. (JakM) segir, að einungis 2 þingmenn sjeu fylgjandi einkasölu? Mjer þykir talsverð mótsögn vera í þessu.

Hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) spurði, hve nær samningurinn hefði gengið í gildi. Hann gekk í gildi 10. febrúar þ. á. og gildir til ársloka 1925. Hv. þm. spurði, hvað þá ætti að gera. Það er að vísu nægur tími að ræða um það á næsta þingi, en mjer er engin launung á því, hvað jeg hefi hugsað mjer að gera ætti. Samningnum má segja upp með eins árs fyrirvara, og tel jeg sjálfsagt, að það verði gert 31. desember 1924. Forstjóri danska steinolíufjelagsins spurði mig, hvort ekki mætti telja fullvíst, að svo yrði gert. Sagði jeg honum, að jeg gæti ekki lofað neinu um það, væri það komið undir þeirri stjórn, er þá færi með völd, en jeg teldi sjálfsagt, að þetta yrði gert, og að þá yrði leitað tilboða á ný alment, og fengi fjelag hans þá að taka þátt í þeirri samkepni. Þetta álit mitt hefi jeg ritað á brjef frá honum til stjórnarinnar. Jeg er sannfærður um, að þegar að því kemur, munum vjer komast að enn betri samningum en nú, þó að jeg telji þennan samning góðan, því að þá verðum vjer búnir að fá dýrmæta reynslu.

Sami hv. þm. gat þess, að stjórnin hefði nú tekið á sig mikla ábyrgð; væri hún nú skyld til þess að sjá um, að altaf væru til nægar birgðir af góðri steinolíu. Auðvitað hefir stjórnin tekið þessa skyldu á sig, og býst hún við að vera fullkomlega fær um að inna hana af hendi. Jeg er ekkert hræddur við að taka þá ábyrgð á mig fyrir mitt leyti. Og ef samningurinn reynist að einhverju leyti óhagstæður, er mjer um að kenna, og jeg telst ekki undan þeirri ábyrgð, því jeg taldi skyldu mína að framkvæma þessi lög. Er mjer nær að ætla, að eitthvað hljóð hefði heyrst úr horni, hefði jeg ekki gert það; þó varla frá þessum hv. þm.

Þá vjek hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) nokkrum almennum orðum að landsverslun og skipakaupum ríkisins. Jeg er ekki við því búinn að rökræða það mál alment, enda býst jeg við, að hv. þm. Ak. (MK) sje fær um að svara þar fyrir, ef nokkru þarf að svara. En jeg skal geta þess, að hvort sem ríkið tók einkasölu á steinolíu eða ekki, var full nauðsyn á að eiga skipið Villemoes áfram til steinolíuflutninga. Um Borg er það að segja, að meiri hluti þingmanna mun ekki vilja selja hana. Það kom til tals í hv. Ed. í fyrra, og á þessu þingi lá fyrir einni nefnd í þessari hv. deild tilboð um kaup á skipinu fyrir 200000 danskar kr. Í fyrra vildi hv. Ed. ekki sinna þessu, og nú hefir komið til mín brjef frá nefnd þeirri, er jeg gat um, er skýrir frá, að meiri hluti nefndarinnar sje mótfallinn sölunni. Það er því fullt eins mikið vilja þingmanna að kenna sem stjórninni, að skipið hefir ekki verið selt.