09.05.1923
Neðri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í D-deild Alþingistíðinda. (3432)

62. mál, steinolíueinkasalan

Jón Baldvinsson:

Mig hefir oft furðað á þeim mönnum, sem þykjast bera hag sjávarútvegsins fyrir brjósti, en nota þó sjerhvert tækifæri til þess að mæla á móti því, að ríkið hafi einkasölu á steinolíu. Get jeg ekki skilið, hvað ríkinu gæti gengið til að selja þessa vöru hærra en hæfilegt er eða lakari heldur en einstakir menn eða fjelög mundu gera. Mun sú skoðun hingað til hafa verið ríkjandi, bæði hjá þingi og þjóð, að sjálfsagt væri, að ríkið ræki þessa verslun. Hefir saga málsins hjer á þingi sýnt það, að það hefir verið eindregin ósk þingsins, að ríkið ræki verslunina á þessari vörutegund, hvernig svo sem þingmenn eða stjórnir hafa annars litið á ríkisrekstur alment. En þetta sýnir, hve sjálfsagður og rjettmætur ríkisrekstur er og að með honum einum verði bætt viðskiftaástandið. Hefir og öll saga steinolíufjelags þess, sem starfað hefir hjer á landi undanfarið, sýnt það, að það hefir ekki verið umhyggjan fyrir landsmönnum eða sjávarútveginum, sem fyrir því hefir vakað, heldur það eitt að græða sem mest. Er þetta líka auðskilið og eðlilegt, skoðað frá fjelagsins sjónarmiði. Má í því efni benda á dæmi. Fyrir nokkrum árum reyndi Fiskifjelagið, er fram úr hófi keyrði hjá steinolíufjelaginu, að fá farm af olíu hingað og hefja samkepni við steinolíufjelagið; en sú tilraun mishepnaðist. Steinolíufjelagið lækkaði olíuna svo mikið, að Fiskifjelagið stóðst ekki samkepnina og tap varð af tilrauninni. Halda menn nú, að það hafi verið af umhyggju fyrir útveginum, að steinolíufjelagið lækkaði verðið þá? Nei. Það var aðeins til þess að reyna að koma í veg fyrir, að tilraunir sem þessi, er Fiskifjelagið gerði, yrðu endurteknar. Og svo setti fjelagið auðvitað upp verðið, þegar Fiskifjelagsolían var úr sögunni, og vann þá upp margsinnis það, sem sett hafði verið niður áður. Það eru slík dæmi, sem komið hafa mönnum á þá skoðun, að nauðsynlegt hafi verið, að ríkið tæki að sjer einkaverslun á þessari vörutegund.

En auðvitað er það, að þessi verslun ríkisins kemst ekki hjá aðfinningum frá þeim mönnum, er þykjast trúa á „samkepnina“ svokölluðu. Hv. fyrirspyrjandi (JakM) og hv. þm. Ísaf. (JAJ) fundu henni það aðallega til foráttu, að gróðinn væri of mikill. En nokkur vandi er hjer á ferðum. Ef landsverslunin græðir, er það kallað okur, en ef hún tapar, er það talið sýnishorn þess, hve ríkisrekstur beri sig illa. En þess er að gæta, að þótt landsverslunin hafi þennan hag af versluninni, þá verður samt steinolían altaf fyrir neðan verð steinolíufjelagsins.

Er og enn fremur aðgætandi, að þessi beini gróði af landsversluninni á steinolíu er lítill, saman borið við þann óbeina gróða, sem landsmenn hafa af þessari einkasölu, svo mjög sem landsverslunin hefir lækkað verðið. Og hvað mundi steinolíuverðið vera nú, ef engin landsverslun hefði verið?

Jeg átti bágt með að skilja, hvers vegna þessi fyrirspurn kom fram. Raunar er því slegið fram, að ástæður sjeu aðrar nú en þegar heimildarlögin voru sett. Það er að vísu rjett, að verslunin er greiðari nú en hún var á stríðstímunum, en hún er ekki greiðari nú en hún var fyrir stríðið, og höfðu þó þá komið fram eindregnar óskir um, að ríkið tæki að sjer þessa verslun. Hv. fyrirspyrjandi (JakM) vildi telja, að heimildarlögin væru burtu fallin sökum þess, að ástæður fyrir þeim væru burtu fallnar. En þetta er ekki rjett, eins og jeg þegar hefi sýnt. Ástæðurnar liggja fyrir enn og munu liggja fyrir á meðan steinolía annars er notuð.

Þá sagði hv. fyrirspyrjandi, að sumir hv. þm. hefðu haft það í huga á síðasta þingi að bera fram þáltill. um það að láta lögin koma til framkvæmda, en ekki þorað það, því að það hefði áreiðanlega verið felt. En hvernig stóð þá á því, að þessir menn, sem á móti voru, ef þeir eru svo sterkir sem hv. fyrirspyrjandi vill vera láta, komu því ekki til leiðar, að heimildarlögin væru afnumin?

Jeg hygg, að þeir hafi ekki þorað að reyna þetta, því að þeir hafi vitað, að þessi viðleitni mundi ekki hepnast.

En annars þarf ekki að undra, þótt óánægjuraddir komi fram. Kaupmannastjettinni finst hjer gengið á sinn hag og rjett til að fara með verslunina, en sjerstaklega er það þó auðvitað steinolíufjelagið sjálft, sem er mótfallið einkasölunni.

En jeg held, að breytni þessa fjelags hafi ekki verið svo, að ástæða hafi verið til fyrir hv. þm. að bera hag þess fyrir brjósti, og síst held jeg, að ástæða hafi verið til að færa þessu fjelagi þakkarávarp fyrir það, hversu vel fjelagið hefði birgt landið upp af steinolíu á stríðsárunum, eins og hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) gerði. Hefir hv. þm. Ak. (MK) og hæstv. atvrh. (KIJ) lýst maklega velgerðum þessa fjelags og hvers vegna ekki var samið við fjelagið.

Vil jeg svo láta lokið máli mínu, aðeins geta þess, að jeg skil ekki, hvernig nokkur þm. getur verið á móti þessari gömlu og sjálfsögðu kröfu þjóðarinnar um bætur á versluninni með þessa vörutegund, án þess þó að geta bent á eitt einasta atriði, sem geti orðið til óhagræðis. Bendir einmitt alt til þess, að að þessu verði hinn mesti hagnaður. Vildi jeg taka enn dýpra í árinni og láta ríkið reka alla verslun, en jeg hygg, að það þýði ekki að koma fram með till. um það nú, því að það mun tæpast verða samþykt á þessu þingi.

Jeg hafði ætlað mjer að finna að því, að stjórnin ætlaði innflutningsfrestinn svona langan (6 mánuði), en úr því hæstv. atvrh. (KIJ) hefir lýst því yfir, að hann sjái eftir því, skal jeg láta það mál niður falla. Jeg held því fram, að landið hafi alls ekki tapað á steinolíuversluninni. Landsverslunin hefði að mínu áliti átt að halda áfram óbreytt eins og hún var 1920–21. Þingið breytti ekki rjett í þessu máli í fyrra, en þessu verður nú skotið til þjóðarinnar á þessu ári, þar sem eru kosningamar í haust, og þætti mjer undarlegt, ef það yrði þá uppi að leggja niðursteinolíueinkasöluna eða enn meir yrði dregið úr landsversluninni. Jeg að minsta kosti ætla fyrst að trúa því gagnstæða.