09.05.1923
Neðri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í D-deild Alþingistíðinda. (3433)

62. mál, steinolíueinkasalan

Hákon Kristófersson*):

Jeg get ekki tekið undið það með hv. 2. þm. Reykv. (JB), að þessu máli hafi verið hreyft að ófyrirsynju, því það hefði að mínu áliti átt að vera komið fram fyrir löngu. Jeg vil ekki halda því fram, að margt hafi verið ranglega gert í því, en hitt veit jeg, að allmikil óánægja á sjer stað út af þessu máli, sjerstaklega úti um land.

Jeg er ekki ókunnugur þessu máli, og hefi því ekki búist við, að stjórnin tæki að sjer sölu á steinolíu öðruvísi en í einokunarformi, enda þótt jeg trúi vel aðalforstjóra landsverslunarinnar, hvað sem öðrum líður. Steinolíuverslunin var áður í höndum fjelags, sem við höfum enga ástæðu til að telja okkur í þakklætisskuld við, eins og hv. þm. Ak. (MK) hefir þegar sýnt fram á, og það mjög rjettilega. En þrátt fyrir það, að steinolían yrði tekin til ríkiseinkasölu, held jeg því fram, að það hafi ekki verið ætlast til, að þetta yrði veruleg tekjugrein handa ríkissjóði, og mótmæli jeg þeim skilningi hæstv. atvrh. (KIJ) á þingviljanum. Hitt er alt annað mál, þó að þessi verslun væri látin bera sig og græddi hóflega, t. d. sem svaraði 2 kr. af hverri tunnu.

Jeg ætla ekki að fara að mótmæla tóbakseinokuninni sjerstaklega, en það verð jeg þó að segja, að hún er á komin samkvæmt þingvilja, sem alveg stendur á takmörkunum til þess að vera til. Tóbakseinokunin komst sem sje í gegn aðeins með eins atkvæðis mun. Hæstv. atvrh. (KIJ) hugði það mundi best henta almenningi, að ríkið tæki líka einkasölu á salti og kolum. Jeg skil þetta svo, sem hann hneigist að því að taka meginið af versluninni í landinu í hendur ríkisins. Jeg er þessu algerlega andstæður, og frá mínum bæjardyrum sjeð, leiðist mjer, að hann skuli halda því fram, að þetta færi betur úr höndum landsstjórnarinnar en þeirra, sem hingað til hafa haft þá verslun á hendi. Það er heldur ekki hægt að byggja á því, þótt einstöku landshlutar hafi orðið vörulausir; þetta gæti alveg eins komið fyrir hjá ríkiseinokunarverslun.

Jeg held að það sje rjett athugað hjá hæstv. atvrh. (KIJ), að til þess hafi verið ætlast af þinginu, að stjórnin tæki að sjer steinolíuverslunina, ef henni fyndist þess full þörf, og sje jeg því ekki, að hann sje vítaverður fyrir, þótt hann hafi gert þetta.

Samt sje jeg ekki, að ástæða hafi verið til þess að gefa ekki steinolíufjelaginu hjer kost á að koma fram með tilboð, enda hefði þá ekki verið hægt að bregða stjórninni um að hafa gengið fram hjá því. Það hafa gengið ýmsar skrök- og hviksögur víðs vegar um þetta mál, og var því orðin nauðsyn á að fá það rætt hjer á þinginu. þess vegna skil jeg ekki, hvers vegna hv. 2. þm. Reykv. (JB) getur verið óánægður yfir því, að tækifæri hefir gefist til þess að stökkva þessum hviksögum. Jeg verð og að segja það, að hæstv. atvrh. (KIJ) bar skylda til þess að kynna þingmönnum, hvernig sakir stæðu í þessu máli, en jeg væni hann alls ekki þess, að hann hafi viljað leyna neinu. Það er og, að samningur þessi kemur æðiseint fram, þó að hann liggi nú í frumriti í skrifstofu Alþingis, og það á enskri tungu, sem fæstir þm. skilja. Hefði verið rjettara að láta þýða hann, svo allir megi sjá og skilja, og jeg vænti þess, að hæstv. atvrh. (KIJ) telji þetta ekki árás á sig, þó jeg segi þetta. (Atvrh. KIJ: Alls ekki). Þó að jeg hafi nú sagt alt þetta, er það ekki þann veg að skilja, að jeg sje að áfellast stjórnina fyrir að taka steinolíuverslunina í sínar hendur; það stóð öðruvísi á með steinolíuna en tóbakið. Jeg var á móti þeirri einkasölu. En nú er stjórnin í þessu steinolíumáli meðfram að sporna við yfirgangi erlends fjelags, sem hefir sýnt sig að ójöfnuði við oss. Stjórnin gerir landsmenn ánægðasta með því að hafa olíuna ekki dýrari en það, að verslunin liðlega beri sig, en geri þetta ekki að tekjugrein fyrir ríkissjóð. Þó að ríkið græði sem svarar 2 kr. á tunnu, tel jeg ekki skaða neitt.

Það er alls ekki rjett hjá hv. 2. þm. Reykv. (JB), að þjóðin hafi krafist ríkiseinokunar á steinolíu. Það var heldur hitt, að sporna við því, að verðið væri óhæfilega hátt á þessari vöru. Jeg get vel búist við því, að samningar við steinolíufjelagið hjer hefðu reynst erfiðir; þeir hafa víst oft verið það. En þó tel jeg rjettara, að því hefði verið gert fært að halda áfram verslun hjer, en halda aðeins í hemilinn á því, svo því tækist ekki að okra á landsmönnum, eins og að undanförnu.