05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í D-deild Alþingistíðinda. (3447)

108. mál, ullariðnaðarmálið

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg veit ekki betur en að þessi verksmiðjueigandi frá Huddersfield sje væntanlegur hingað í sumar. Ætlar hann þá fyrst og fremst að skoða þá staði, sem getur komið til álita, að verksmiðjan verði reist á. Hvort hann gerir nokkurt tilboð, er komið undir því, hvernig honum líst á alla aðstöðu hjer. Jeg býst ekki við, að nokkuð verði aðhafst í málinu fyr en þessi maður hefir verið hjer. En ef hann vill gera tilboð um að reisa verksmiðjuna, eins og hann hefir haft á orði, og leggja sjálfur til þriðjung og útvega lán að 1/4 hluta, býst jeg við, að stjórnin muni leita álits þingmanna; mundi mega ná til þeirra allra á skömmum tíma í síma eða á annan hátt. Meira get jeg ekki sagt um þetta mál að svo stöddu, því að komi ekkert tilboð, geri jeg ekki ráð fyrir, að hægt verði að undirbúa þetta betur fyrir næsta þing, vegna fjárskorts og margvíslegra örðugleika. Önnur mál kalla einnig að. Þingið heimtar landsspítala, nýtt geðveikrahæli, strandvarðarskip og margt fleira. Jeg bíð því átekta, þangað til enski verksmiðjueigandinn kemur hingað og jeg heyri undirtektir hans.

Þá skaut hv. fyrirspyrjandi (EE) því fram, hvort ullariðnaðarnefndin ætti ekki að halda áfram að starfa. Nefndin hefir ekki verið leyst upp enn þá, og verður það ekki gert að svo stöddu. Jeg býst við, að einn nefndarmanna, sá sem mest hefir að málinu unnið, verði í fylgd með Englendingnum í sumar. En jeg geri ekki ráð fyrir, að nefndinni verði fengin önnur verkefni, þangað til það er víst, hvort maðurinn kemur.