12.05.1923
Neðri deild: 62. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í D-deild Alþingistíðinda. (3452)

147. mál, skólamál

Forsætisráðherra (SE):

Það er, eins og hv. fyrirspyrjandi (MK) tók fram, heimild í lögum um að stofna þessa skóla, lög nr. 37, 26. okt. 1917, um húsmæðraskólann á Norðurlandi, sbr. lög nr. 74, 28. nóv. 1919, um húsagerð ríkisins, og lög nr. 13, 18. maí 1920, um kenslu í mótorvjelfræði. Ríkissjóður á að leggja fram 2/3 af byggingarkostnaði húsmæðraskólans á Akureyri, en 1/3 kostnaðarins á að koma annarsstaðar frá. Akureyrarbær hefir þegar heitið ábyrgð fyrir 1/3 hluta þessa kostnaðar, og eftir þeim skjölum, sem fyrir liggja, virðist svo, sem samkomulag geti orðið um staðinn handa skólahúsinu, en um það var mikill ágreiningur áður. Hann verður að öllum líkindum ákveðinn hjá gróðrarstöðinni á Akureyri, eða þar í nánd. Jeg vil taka það fram, að samkvæmt 6. gr. nefndra laga um stofnun húsmæðraskóla á Norðurlandi er kveðið svo á, að þetta komi til framkvæmda þegar efni og annað, sem með þarf til skólans, verður fáanlegt með viðunanlegum kjörum. Dráttur sá, sem orðið hefir á framkvæmdum í þessu máli, stafar sjálfsagt meðal annars frá þessum ákvæðum laganna.

Það verður allálitleg upphæð, sem þessi skóli kostar, en líklega verður það stærsta kostnaðaratriðið, að ríkið mun eiga að standa straum af rekstri skólans. Það er nú ákveðið, að geðveikrahælið á Kleppi verði bygt, eða byrjað að byggja það, í sumar. Það mun kosta um 400 þúsund kr., og nú þegar er búið að kosta til þess um 150 þús. kr. Þá er og skólahús á Eiðum, sem var víst búið að lofa að byggja, en ekki varð úr vegna fjárhagslegra örðugleika.

Jeg veit, að það er mikill áhugi á þessu skólamáli á Norðurlandi, og hafa konur þar gengið rösklega fram í málinu. Á Vesturlandi er einnig verið að hugsa um skóla á Staðarfelli, sbr. þáltill. þá, er hjer var samþykt. Jeg get lofað því, að jeg skal undirbúa þetta mál eftir föngum, og því heiti jeg, að fela húsagerðarmeistara ríkisins þegar í stað að gera uppdrætti og kostnaðaráætlun að þessari skólahúsbyggingu á Akureyri. Hins vegar, þegar þetta er hvorttveggja tilbúið, þá er fyrst hægt að sjá, hve mikið verður framlagið úr ríkissjóði og hvað það er, sem greitt verður annarsstaðar frá. þetta tók og hv. fyrirspyrjandi (MK), rjettilega fram. En fyrst um sinn á jeg erfitt með að lofa meiru, vegna fjárhagsástæðna. Kleppshælið verður, eins og jeg hefi þegar áður tekið fram, að ganga fyrir, og hvað síðan tekur næst við, er því miður ekki hægt að segja með neinni vissu.

Jeg skil vel óskir hv. fyrirspyrjanda (MK), og eins er mjer kunnur áhugi kvenna þar norður, sem jeg met mikils, en jeg sje mjer eigi fært að lofa meiru en því að undirbúa þetta mál, svo það geti komið til framkvæmda eins fljótt og auðið verður, en hvenær, er mjer ókleift að segja, svo ábyggilegt sje.

Að því er snertir hitt atriðið, kenslu í mótorvjelfræði, er það engum vafa undirorpið, að það er hið mesta nauðsynjamál. Jeg skal viðurkenna það, að lítið hefir enn verið gert til að hrinda þessu í framkvæmd síðan lögin voru gefin um það, en jeg hefi þó átt tal við Jessen, skólastjóra vjelstjóraskólans, og hefir hann tjáð mjer, að húsrúm fyrir þennan skóla væri það, sem vantaði tilfinnanlegast. Til þess, að þessi skóli væri í nokkru lagi, þyrfti stóran vjelasal, og þar yrði að hafa alt að 5 tegundir mótora. Taldi hann vafasamt, að hægt væri að leigja nokkurstaðar hjer í bæ húsrúm af þessu tægi, en skýrði mjer frá því, að nefnd nokkur starfaði að því að koma upp byggingu fyrir þennan skóla í sambandi við vjelstjóraskólann, iðnskólann o. fl. Væri og sjálfsagt, að vjelstjóraskólinn og mótorskólinn stæðu í nánu sambandi hvor við annan. Vjelstjóraskólinn hefir lengst af lánað mótora, en fyrir nokkru átti hann mótor, en seldi hann til hafnarsmiðjunnar með því skilyrði, að hann fengi nýjan mótor, er hann krefðist þess.

Í sambandi við þetta mál er vert að geta þess, að sem stendur er enginn fáanlegur til að vera kennari við mótorskólann, en nú er mjög efnilegur ungur maður að fara utan í því skyni að leita sjer fullkominnar fræðslu í þessari grein.

Jeg mun eftir mætti reyna að greiða fyrir þessu máli, þar sem jeg er algerlega sammála hv. fyrirspyrjanda (MK), um að þetta er hið mesta nauðsynjamál.