12.05.1923
Efri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í D-deild Alþingistíðinda. (3458)

42. mál, ferðalög ráðherra

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Það er nú orðið nokkuð langt síðan fyrirspurn þessi kom fram, nærfelt 3 mánuðir, og leyfi jeg mjer að átelja hæstv. landsstjórn fyrir það seinlæti, sem komið hefir fram í því að vanrækja að svara fyrirspurnum. Seinlæti hennar er í algerðu ósamræmi við erlenda siðvenju, því að t. d. Poincaré, forsætisráðherra Frakka, svarar fyrirspurnum með mjög stuttum fyrirvara, og oft jafnvel samdægurs, enda þarf líka svo að vera. Enn fremur vil jeg átelja hæstv. landsstjórn fyrir það, að svo lítur út, sem tveim fyrirspurnum viðvíkjandi Íslandsbanka verði alls ekki svarað, enda þótt maður skyldi ætla, að hæstv. forsrh. (SE) ætti mjög auðvelt með að svara þeim, þar eð hann er formaður bankaráðsins.

Þá kem jeg að þeim atriðum, sem hjer er sjerstaklega spurt um.

Spurningin lýtur að ferðakostnaði ráðherranna síðan við fengum þriggjamannastjórnina 1917.

Ef það er rjett, sem jeg hefi ástæðu til að ætla, að eyðslusemin hafi verið hlutfallslega mikil á þessu sviði, þá er það þess vert, að það sje athugað, því að mjög hætt er við, að það hafi áhrif á aðra starfsmenn ríkisins, ef æðstu embættismenn þess fara gálauslega með fje. Mjer hefir borist til eyrna, að mjög mikill munur sje á því, hve miklu ráðherrarnir hafi eytt á ferðalögum sínum síðustu ár, t. d. hafi tvær ferðir álíka langar verið farnar með stuttu millibili, og hafi önnur þeirra kostað 9 þús., en hin nálægt 3 þús. kr. Ef þetta er rjett frá skýrt, þá er nauðsynlegt að fá að vita, í hverju þessi feikna mismunur liggur, því að ástæðulausu má engum ráðherra líðast slík eyðsla.

Aðalefni fyrirspurnarinnar er þó að fá að vita, hvernig þriggjamannastjórnin hefir gætt fjárhags ríkisins síðustu ár á þessu sviði. Ferðakostnaðurinn hefir bersýnilega aukist mjög mikið, en hætt er við, að það sje aðeins vottur um aukna eyðslusemi á fleiri sviðum. Í sambandi við þessa eyðslu býst jeg ef til vill við, af svari hæstv. forsrh. (SE), að fá ástæðu til þess að taka fleiri atriði þessu viðvíkjandi til athugunar.