12.05.1923
Efri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í D-deild Alþingistíðinda. (3463)

42. mál, ferðalög ráðherra

Forsætisráðherra (SE):

Mjer liggur við að spyrja hv. 5. landsk. þm. (JJ), hvernig stendur á því, að hann kemur með þessar fyrirspurnir sínar, þar sem mjer finst á ræðu hans, að hann viti fyrirfram það, sem hann er að spyrja um. Þannig sundurliðar hann sjálfur einn ferðareikninganna lið fyrir lið, án þess að jeg hafi gefið honum nokkrar upplýsingar í því efni. (JJ: Það lekur margt út úr stjórnarráðinu).

Á því leikur enginn vafi, að fyrirspurnum um Íslandsbanka ber þeim ráðherra að svara, sem bankamir heyra undir. Jafnvíst er það, að fyrirspurninni um hlutaeignina var ekki hægt að svara, og vísa jeg til þess, sem jeg hefi áður sagt um það efni. Auk þess sje jeg ekki, að hv. þm. eigi frekari heimtingu á að fá að vita um hlutaeign manna í bankanum heldur en um, hvað hver einstakur skuldar bankanum, og ef farið væri að spyrja um þær sakir, þá hefði stjórnin ærið nógu að svara.

Ástæðan til þess, að bankaráðið ákvað, að eigi mætti birta það, sem á þeim fundum gerist, án samþykkis þess, var sú, að það vildi ekki gefa sumum blöðunum tilefni til þess að rangfæra allar ráðstafanir, sem gerðar eru í bankaráðinu.

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) álítur sýnilega, að hann með þingmenskunni hafi öðlast rjett til þess að krefjast hvaða upplýsinga sem er um hag náungans. Þá væri einstaklingsöryggið illa komið í þjóðfjelaginu, ef svo væri. — Ef ætti, eins og jeg tók fram áðan, að gefa allar slíkar upplýsingar, þá hefði stjórnin engan frið fyrir þeim, sem spurulir eru.

Jeg bjóst ekki við, að svo miklar umræður yrðu um jafnsmávægilegt atriði og ferðir ráðherranna. Að ráðherrar ferðast dýrara en privatmenn, kemur til af því, að þeir eru neyddir til þess stöðu sinnar vegna. Laun ráðherranna eru ekki svo há, að þeir geti af þeim greitt ferðakostnað sinn. (JJ: En eiga þeir að græða á ferðalögunum?).Vitanlega ekki, enda dettur engum slíkt í hug, ekki einu sinni hv. 5. landsk. þm.