12.05.1923
Efri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í D-deild Alþingistíðinda. (3466)

42. mál, ferðalög ráðherra

Jón Magnússon:

Jeg get ekki varist þeirri hugsun, og mun jeg ekki einn um hana, að nokkuð sje það óvenjulegt, að maður, sem þegar er fyrir löngu farinn úr stjórn, skuli þurfa að standa í slíkum eldhúsdagsverkum sem þau eru, sem hjer eru á ferðinni.

Viðvíkjandi ferðakostnaðinum er það að segja, að hefði hv. fyrirspyrjandi (JJ) viljað vera vandaður maður, þá hefði hann ekki síður átt að taka aðrar ferðir, sem jeg hefi farið, til samanburðar við ferð mína 1920, en ferðalög annara ráðherra. En hann var svo heppinn að finna þarna háa upphæð, að því er honum þykir, og sem hefir svo orðið honum kærkomið tilefni til að ráðast á mig. Og hann þurfti að nota þetta til þess að bera lof á núverandi ráðuneyti, sem honum stendur nær hjarta. Jeg hefi þó farið margar aðrar ferðir en þessa umræddu ferð 1920, og hefir kostnaðurinn við þær orðið svipaður ferðakostnaði hinna annara ráðherra. Árið 1917 var t. d. síst ódýrara að ferðast en nú, en þá fór jeg tvær ferðir, sem kostuðu báðar aðeins um 7 þús. kr. Að þessu athuguðu verður ekki annað sjeð en að hjer hafi ekkert annað verið haft fyrir augum en árás á mig, — fyrirspurnin siglir með öðrum orðum undir fölsku flaggi. En jeg þykist of góður til að vera að orðlengja frekara um þetta. Hv. fyrirspyrjandi fær aldrei almenning til að hlusta á þessa ákæru. Til þess þekkja menn mig of vel.

Jeg mun annars ekki fara langt út í það, sem hv. 5. landsk. þm. (JJ) hefir gert að umtalsefni, og ekki fara að verja þær ráðstafanir, sem beinlínis voru þingsins. þannig getur hann ekki ætlast til, að jeg fari að bera fram varnir út af byggingunni á Vífilsstöðum. Hún var auðvitað gerð samkvæmt vilja þingsins og undir umsjón húsagerðarmeistara ríkisins. En hvað einhver og einhver hefir sagt hv. fyrirspyrjanda um þau mál, varðar mig ekkert um.

Þá sagði jeg ekki, að þessi hv. þm. (JJ) væri persónulegur fjandmaður minn. Jeg sagði, að hann væri opinber fjandmaður minn. En vel má samt vera, að hann sje persónulegur fjandmaður minn. Tel jeg það líklegt. Hann hefir jafnan verið minn mótstöðumaður, þótt Tíminn hafi ekki verið það altaf. Hv. þm. hefir án afláts afflutt mig með ósannindum og blekkingum, og það fer einatt svo, að maður, sem stöðugt gerir mótstöðumanni sínum rangt til og viljandi, fari að afsaka atferli sitt — jafnvel ósjálfrátt — fyrir sjálfum sjer, hve samviskulaus, sem hann er, og þá helst með því, að mótstöðumaðurinn sje vondur maður. Og ósjálfrátt verður honum illa við mótstöðumanninn. Hvað var jeg að tala um samviskuleysi ? Auðvitað ekki hjá hv. 5. landsk. þm. (JJ). Jeg er alveg viss um, að hann hefir góða samvisku, gersamlega óslitna, alveg eins og nýja.

Þá segir hann, að jeg hafi lagst á móti öllum þeim málum á þinginu, sem hann hafi staðið að. Það er satt, að jeg hefi staðið móti flestum þeim málum, sem hann hefir flutt hjer, en það er af því, að þau hafa verið óframbærileg öll að búningi og flestöll að efni. Þó er hjer undantekið frv. um gráðaostinn, sem jeg var með, vegna þess, að jeg taldi rjett að veita styrkinn, þótt laga þyrfti frumvarpið.

Jeg ætla ekki að fara að svara frekara fyrir fyrv. fjármálaráðherra, hv. 1. þm. Skagf. (MG). Hann mun gera það sjálfur, er honum þykir þörf og á þann hátt, er honum þykir þörf.

Þá kom það, að kaupmenn væru mínir einu stuðningsmenn. Það er satt, að sumir góðir menn í þeirra flokki hafa jafnan stutt mig að málum. En að þeir geri það sem heild, það er ofsagt, enda hafa þeir ekki altaf verið ánægðir með mig eða mína stjórnarstefnu. Og jeg get frætt hv. 5. landsk. þm. (JJ) á því, að jeg á víðar stuðningsmenn en meðal kaupmannastjettarinnar.

Hv. þm. (JJ) hefir víst þótt það vel viðeigandi að draga inn í þessar umræður smiðinn, sem setti kvistinn á stjórnarráðshúsið, og tala um hann eins og hann hefði gert sig sekan í einhverju refsiverðu athæfi. Jeg vil nú ekki fara að deila um þá hluti; jeg hygg, að árás hv. þm. á þennan mann skaði aðeins hv. þm. sjálfan.

Enn var verið að fræða hv. deild á því, að jeg hefði lofað Dönum sendiherra í Kaupmannahöfn. Jeg á nú engin orð. Æðioft hefir hv. 5. landsk. þm. komið með harla óskynsamlegar staðhæfingar, en það, að Dönum hafi verið þægð í að fá sendiherrann og að jeg hafi lofað þeim honum, það tekur flestum hans firrum fram. Hvaða þægð gat svo sem Dönum verið í þessu? Hann ber fyrir þessu Jörund Brynjólfsson, fyrv. alþm. En annaðhvort er, að Jörundur hefir aldrei sagt neitt í þá átt, eða að það hefir verið afskaplegur misskilningur hjá honum. Hitt er kunnugt, að það voru ýmsir þingmenn, sem æsktu þess, að vjer hefðum sendiherra í Kaupmannahöfn.

Jeg skal ekki tefja hv. deild á löngu máli um sendimennina í Vesturheimi. Aðeins skal jeg geta þess, að það var eftir kröfu þingsins, að erindrekarnir voru um stund hafðir tveir.

Þá hefir hv. 5. landsk. þm. (JJ) gert rekistefnu út af skipun eða ekki skipun konsúls í Genúa. Um þetta mál hefir áður verið fjallað mjög ítarlega hjer á Alþingi, og það sýndi sig, að Alþingi vildi ekki fara í deilur við sambandsþjóð vora út úr því máli á þann eina hátt, er gerlegt vaf, nefnilega að láta gerðardóm, samkv. 17. gr. sambandslaganna, útkljá deiluatriðið. Jeg býst við, að þingið sje enn sömu skoðunar. Um kærubrjef það, sem hv. þm. talar um, get jeg ekki dæmt, því að jeg hefi það aldrei sjeð, en jeg skal taka það fram, að þar getur ekkert kæruefni verið fyrir hendi gegn fyrv. stjórn.

Þá talaði hann langt mál um ráðningu forstöðumanns fyrir áfengisverslunina og sagði, að stjórn sú, sem á eftir mjer kom, hefði ekki getað annað en gert skriflega þann samning til þriggja ára, er áður hefði verið gerður munnlega. En þetta hlýtur að vera vísvitandi rangfærsla. Jeg gerði aðeins bráðabirgðasamning — til 6 mánaða — og það skriflega. En slík rangfærsla er hin venjulega hjá hv. þm. í Tímanum. (JJ: þurfti ekki að bæta honum upp sem Jóni Gíslasyni?). Hr. Mogensen þurfti alls ekki að bæta upp, því að hann hjelt sinni lyfjabúð. Til þess að hafa einhver takmörk á ræðuhöldum hjer í kvöld, ætla jeg ekki að fara frekar út í umtal um dyravörðinn, enda þótt jeg, sem andstæðingur núverandi hæstv. stjórnar, hafi frekar ástæðu til þess að tala um það mál en stuðningsmenn hennar. En það er ekki nóg, að jeg eigi að hafa ábyrgð á upphafi áfengisverslunarinnar; t. d. á það að vera mjer að kenna, að ekki sje hægt að nota geymsluhús landsins, Nýborg, í þarfir verslunarinnar, vegna neitunar byggingarnefndar Reykjavíkur um breytingar á þessu húsi, þótt það sje vitanlegt, að landsstjórnin hefir fulla heimild til að láta gera breytinguna, hvað sem byggingarnefnd segir. Að hæstv. landsstjórn hefir ekki gert það, ber vott um, að hún hefir ekki sjeð ástæðu til þess.

Þá hjelt hv. þm. (JJ) því fram, að í fyrra hefði ekki verið nema einn maður í Framsóknarflokknum, sem vildi styðja Magnús Guðmundsson til þess að vera áfram ráðherra, en jeg get frætt hann um, að mjer sögðu þá margir þeirra, að þeir mundu styðja hann, og hv. 5. landsk. þm. (JJ) ætti sjálfum að vera best kunnugt um, að næstum því allir, ef ekki allir, Framsóknarmenn óskuðu þess, að Magnús Guðmundsson sæti áfram í ráðherraembættinu. (JJ: Tóm ósannindi). Þetta er samt satt, og úr því að sagt er um sum blöð, að þau fari með ósannindi, þá er ekki ósennilegt, að ritstjórinn geri það líka, enda sýnir það sig nú, er hann neitar þessari staðhæfingu minni. Vil jeg svo ekki orðlengja frekar um þetta efni, enda hafði jeg fyrirfram svarað flestu því, sem hv. þm. sagði. Ýms atriði, sem hann hefir minst á, tel jeg eigi svaraverð. Má enda ekki misbrúka þolinmæði hæstv. forseta. Þó langar mig til að minnast á annað mál, sem að vísu er ekki beint á dagskrá, en hefir verið rætt hjer talsvert innan um umr. um sjálft dagskráratriðið, nefnilega um fyrirspurnina um hlutaeign manna í Íslandsbanka, og ætla jeg að vera svo vænn við hv. 5. landsk. þm. (JJ) að svara fyrirspurninni að því er mjer við kemur. Í byrjun þessa þriggja ára tíma, sem fyrirspurnin ræðir um, átti jeg níu þúsund krónur í hlutabrjefum Íslandsbanka, en ráðherraembættið reyndist mjer svo lítt ábatasamt, að jeg varð að selja þessa hluti snemma á árinu 1921. Jeg hefi þannig átt hluti í bankanum tæpan þriðjung af þessum kriminella þriggja ára tíma. Síðan hefi jeg engan hlut átt í honum. Jeg hefi viljað fræða hv. þm. um þetta, af því að jeg veit, hve ant honum er að flytja fregnir um mig. Nú getur hann sjálfur og uppaustrarmenn hans flutt fregn eitthvað á þessa leið: 5. landsk. þm. (Jónasi Jónssyni) hefir við fyrirspurn í þinginu tekist að fá sönnur fyrir því, þrátt fyrir megna mótspyrnu kaupmannaliðsins, að Jón Magnússon hefir átt stórfje standandi í hlutum Íslandsbanka, og þá fer að verða skiljanlegt, hvers vegna hann hefir altaf dregið taum bankans til niðurdreps fyrir landið.

Jeg vona, að hv. þdm. taki það ekki svo, að jeg telji fyrirspyrjandann eiga nokkurn snefil af rjetti á því að fá svarað fyrirspurn um það, hvað hver þingmaður eigi, hvort sem eru hlutir í Íslandsbanka eða aðrar eignir. Það er fjarri lagi, að nokkuð sjerstakt geti gilt hjer um eign í Íslandsbanka. Eins og það hafi nokkur áhrif á rjett þingmanna til að greiða atkvæði um mál Íslandsbanka, hvort þeir eiga hluti í honum eða ekki. Jeg veit ekki, hvar lenti, ef þesskonar ætti nokkurn stað. Það mætti þá eins vel segja, að enginn þingmaður, sem ætti vatnsrjettindi, mætti greiða atkv. um vatnalögin. þannig mætti halda áfram lengi, en það er óþarft að hafa miklar málalengingar um þetta efni. Það er svo augljóst, að fyrirspurnin getur ekki haft neitt annað erindi en að þessu leyti að flytja ósæmilega aðdróttun að þingmönnum um hlutdrægni. En þessi aðdróttun er á hinn bóginn skaðlaus, því að jeg er sannfærður um, að enginn, bókstaflega enginn heiðarlegur maður á þessu landi lætur sjer detta í hug, að nokkur þingmaður láti það hafa áhrif á atkvæði sitt í bankamálum, hvort hann kann að eiga hlutabrjef í Íslandsbanka eða ekki.

Það er svo fjarri því, að hv. þingmaður eigi rjett á, að fyrirspurninni sje svarað; hann á ekki einu sinni rjett á að bera hana fram. Eftir 50. gr. stjórnarskrárinnar á hver þingmaður rjett á að beiðast skýrslu ráðherra um sjerhvert alment málefni. En er það alment málefni, prívateign hvers einstaks þingmanns eða dómara? (JJ: Er Íslandsbanki einkamál?). Hann er einkamál að því er snertir þá, sem hluti eiga í honum. Jeg hygg, að um það sje ekki mörgum blöðum að fletta, að svo er ekki. Eftir lögum og þjóðskipulagi voru er það ekki alment málefni.

Nú liggur nærri að segja, að það hafi þá ekki verið rjett af þingdeildinni að leyfa þessa fyrirspurn. Jeg ætla ekki að svara fyrir aðra, en fyrir mitt leyti skal jeg láta þess getið, að jeg fann ekki ástæðu til að neita um leyfið. Jeg þykist ekki þurfa að spara spyrjandann til þess að verða sem víðfrægastan að endemum.

Það atriði fyrirspurnarinnar, sem að þingmönnum snýr, er hlægileg framhleypni, sem engan skaðar nema hv. fyrirspyrjanda sjálfan.

Hitt atriðið er alvarlegra. Það er árásin á dómarana, og þá sjerstaklega Á hæstarjettardómarana. Þeir eru dómararnir kat’ ex-ochen. Þeir hafa sjerstöðu í þjóðfjelagi voru; þeir mega ekki eiga sæti á Alþingi; það er til þess ætlast, að þeir gefi sig ekki við öðrum launuðum störfum, að þeir verði fyrir utan flokkadeilumar og dagstritið. Á móti því, að þeim var synjað um rjettindi, er borgararnir annars hafa allir, átti að koma trygging fyrir þá fyrir því, að þeir væru ekki áreittir að nauðsynjalausu, og rífleg launakjör. Um ríflegu launin er svona og svona, en um árásirnar má segja: „Víst hefir hjer lengi at þrútnað um ójafnaðinn, en nú er knútur á riðinn um ósómann“.

Mönnum eru víst í fersku minni allar í hinar ósæmilegu ásakanir og aðdróttanir að dómstólunum í fyrra út af málum Ólafs Friðrikssonar. Fyrst skammirnar um bæjarfógetann í Reykjavík fyrir rangan og hlutdrægan dóm í sakamálinu gegn Ólafi út af ofbeldi hans og mótþróa gegn lögreglunni (tilefnið rússneski drengurinn). Dómur bæjarfógeta var nú reyndar feykilega mildur í garð Ólafs. Af því jeg ætla mjer ekki að tala hjer annars um undirdómarana eða árásir á þá, þá skal ekki sagt meira um þann dóm eða viðtökumar, sem hann fekk. Svo kemur hæstarjettardómur. Hann er að vísu harðari, en þó í mildasta lagi eftir tilverknaðinum. Út af þessum dómi hæstarjettar kemur í fyrra vor og sumar hver árásin annari ástæðulausari og ósæmilegri. Jeg skal ekki lengja umræðumar með því að lýsa nákvæmlega þessum árásum. Lítið sýnishorn er yfirlýsing jafnaðarmannafjelagsins 5. maí f. á., sem jeg ætla að lesa í upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Jafnaðarmannafjelagið mótmælirdómi hæstarjettar í svonefndu Ólafsmáli sem algerðum stjettadómi og álítur dóminn niðurdrepandi fyrir rjettarmeðvitund og stóran álitshnekkir fyrir hæstarjett“.

Dómstjórinn, Kristján Jónsson, hafði gefið ofurmeinlausa yfirlýsing út af ummælum, sem höfð voru eftir hinum dæmda sakamanni (Ó. F.) frá fundi á Akureyri. Dæmdur lýsti því, að ummælin væru ekki rjett höfð eftir, og hefir í svari sínu til dómstjórans, æðsta dómara landsins, meðal annars þessi orð:

„Hinn löggilti vigtarmaður rjettlætisins á Íslandi, Kristján Jónsson, nefndur dómstjóri í stofnun þeirri, sem af óþektum orsökum er nefnd „hæstirjettur“ .... „endurtekur Kristján þau (þ. e. orð Ó. F.) án þess að láta sjer velgja við að viðhafa sömu aðferðina og verstu kjaftakerlingar, sem lepja slúðrið hver úr annari“ .... „Verði Kristján þessi eitthvað frekar að ybba sig, verður tækifæri til þess að ræða betur meðferð dómstólanna á máli því, sem hjer er um að ræða“.

Svo kemur rjett fyrir árslokin síðustu hæstarjettardómur í öðru Ólafsmáli (við Íslandsbanka), skaðabótamáli. Þá eru endurteknar samskonar ásakanir og árásir. Verkamannafjelagið Dagsbrún samþykkir mótmæli gegn dómnum „sem gagnstæðum rjettarmeðvitund ahnennings“ og heimtar, alveg eins og hv. 5. landsk. þm. (JJ), að tveir af dómurum hæstarjettar sjeu settir af. Formaður Dagsbrúnar, Hjeðinn Valdimarsson, skrifar um þennan hæstarjettardóm í Alþýðublaðið á líkan hátt sem í það hafði verið skrifað um hinn dóminn, en með hógværari orðum. Það þarf máske ekki að kippa sjer upp við það, þótt slíkar árásir, jafnvel á dómstólana, og það hæstarjett sjálfan, komi frá róttækum jafnaðarmönnum í málgagni þeirra, mönnum, sem vilja kollsteypa hinni núverandi þjóðfjelagsskipun.

En þetta þykir ekki nóg. Nú á að nota Alþingi til hinnar sömu óhæfu. Hjer er liðinn knúturinn á ósómann. Það atriði fyrirspurnarinnar, sem snýr að hæstarjetti, er ekkert annað en áframhald af þessum árásum, sem nú hefi jeg lýst, sjerstaklega framhald af vantraustsyfirlýsingunum út af Ólafsmálinu við Íslandsbanka. En það þýðir ekkert fyrir hv. fyrirspyrjanda. Alþingi tekur ekki undir þetta með honum. Alþingi tekur ekki undir tilraunir til þess að fótumtroða virðing hæstarjettar og til að rýra traust hans. Jeg býst við því, að þeir sjeu ekki margir þingmennirnir á þessum stað, sem álíti, að dómurum hæstarjettar sje til þess meinað að eiga sæti á Alþingi, að vissa sje fyrir, að þeir geti ekki borið hjer hönd fyrir sig og varið sig gegn ómaklegum árásum. Jeg læt mjer ekki einu sinni detta í hug að mótmæla aðdróttuninni um það, að það hafi áhrif á atkvæði dómendanna í málum Íslandsbanka, hvort þeir kunna að eiga hlutabrjef í Íslandsbanka eða ekki. Svo mikil fjarstæða er það.

Jeg hefi orðið svo langorður um þetta mál af því að hjer er hætta á ferðum fyrir þjóðfjelagið. Vjer erum fámenn þjóð og lítils megnandi. Oss ríður það á miklu að vernda beint dómana, styrkja og styðja traustið á hæstarjetti. Það hefir stundum heyrst hjá einstaka erlendum viðskiftamanni, að á Íslandi væri ekki rjett að fá, en þeir hinir sömu hugguðu sig áður við hæstarjett í Danmörku. Og þegar verið var að flytja æðsta dóminn inn í landið, þá heyrði jeg raddir í þá átt, að nú væri erlendum mönnum vissara að gæta sín; búast mætti við, að hann yrði vilhallur landsmönnum í viðskiftunum við útlönd. (JJ: Hvað þektu þeir af dómurum hjer áður?) Máske mig, og þá hafa þeir þekt rjettlátan dómara. Hæstirjettur vor er ungur enn, rúmlega þriggja ára, en mjer er óhætt að segja það, að á þessum tíma hafi hann unnið sjer traust bæði út á við og inn á við, eða er farinn að vinna sjer traust. Meira getur það ekki verið; tíminn er enn svo stuttur. En þetta er því viðkvæmt enn. Allir þjóðhollir menn eru skyldir að styðja að því, að æðsti dómstóllinn megi njóta sem bests trausts og virðingar. Að vinna á móti þessu gengur landráðum næst.