12.05.1923
Efri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í D-deild Alþingistíðinda. (3467)

42. mál, ferðalög ráðherra

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Eins og jeg bar fram fyrirspurn þessa, snerti hún aðeins ferðakostnað ráðherra síðustu ár. En síðan drógst hv. 4. landsk. þm. (JM) inn í umræðurnar, af því að við upplestur hæstv. forsrh. (SE) komu í ljós upphæðir, sem þm. (JM) fann, að hann þurfti að verja. En eftir ítarlega tilraun komst hann loks að raun um, að 9 þús. kr. reikningurinn var óverjandi. Varð hann þá ofsareiður. Þá tók hann í bræði sinni að stækka vígvöllinn langt út fyrir fyrirspurnina, til að dreifa athyglinni að öðru alveg óviðkomandi. Hann barmaði sjer yfir árásunum, sem gerðar væra á hann í þessari hv. deild, sem hlýtur að stafa af því, að hann finnur rjettmæti þeirra, en vanmátt sjálfs sín. Annars hefir það altaf sýnt sig, að hann telur aðfinslur við aðra fyllilega rjettmætar, en sjálfur vill hann vera undanþeginn.

Síðar í ræðu sinni varð hann þó hógværari og vildi draga saman seglin, en þá sló út í fyrir honum. Talaði hann lengi um Tímann í sambandi við „drengsmálið“, en öll þau mótmæli, sem fram hafa komið gegn dómum hæstarjettar, eru Tímanum óviðkomandi. Hitt er rjett, að í fyrra mun hafa komið grein í Tímanum um að fækka mætti hæstarjettardómurunum. Þessi tillaga var síðan tekin upp hjer í þinginu af samherjum 4. landsk. þm., en feld. Ef jeg er sekur við hæstarjett fyrir að hafa viljað fækka hæstarjettardómurunum, þá eru hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) og hv. þm. Borgf. (PO) mjer samsekir. Nú munu hv. þdm. sjá, hversu tilgangslaus þessi sveifla hv. 4. landsk. þm. (JM) út fyrir vígvöllinn hefir verið, og enda þótt hún væri gerð í þeim tilgangi að ófrægja mig, þá hefir honum hjer skjátlast hrapallega með því að fara inn á svið, sem eru mjer og mínum flokki óviðkomandi. Jeg tek það hjer fram, að skoðun mín hefir styrkst um, að hv. 4. landsk. þm. (JM) hafi verið á refilstigum síðastliðin ár, og að hámarkinu hafi verið náð 1920. En nú er það mjer mikið gleðiefni, að svo virðist (eða svo virtist mjer síðast í ræðu hans), sem ofsi, vindur og reiði hans sje að hverfa, og vona jeg, að það sje fyrirboði þess, að á næsta þingi fáum við að sjá meira af gætna og skapstilta manninum, en minna af stórherranum frá Ritzhótelinu, sem við fengum að sjá hjer í dag.