22.03.1923
Neðri deild: 26. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

21. mál, ríkisskuldabréf

Jón Þorláksson:

Hæstv. fjrh. (MagnJ) hjelt því fram, að afborganir mundu komast í kring með tímanum, og er það auðvitað rjett, en eftir frv. verður það ekki fyr en eftir 25 ár, að farið verður að borga af lánunum, sem tekin verða á næstu 25 árum, og heldur þeim afborgunum að sjálfsögðu áfram, svo framarlega sem lán verða tekin árlega, að meiru eða minna leyti á þennan hátt. Við skulum nú líta á, til hvers þessi lán eru tekin. Það mun vera ætlunin að taka á þennan hátt lán til þeirra verklegu framkvæmda, sem heimilað er með ýmsum lögum að framkvæma fyrir lánsfje, svo sem til brúa, síma, vita, ef frv. um vitabyggingar verður að lögum, o. fl. En þessi mannvirki eru öll tímans tönn undirorpin, og jeg verð að telja það mjög ógætilegt að gera þetta með lánum, sem þá fyrst á að fara að borga af, þegar mannvirkin eru orðin úr sjer gengin og þurfa mikils viðhalds eða jafnvel endurnýjunar við. Það er talið rjett að dreifa kostnaðinum við þetta á mörg ár með lántökum, en það er ekki rjett hugsun að skjóta allri greiðslu kostnaðarins á frest um 25 ár. Slíkt er vægast sagt fjármálaóreiða, sem fjarri liggur þeirri hugsun, sem ríkjandi hefir verið hjá þingi og stjórn fram til þessa.

Hæstv. fjármálaráðherra sagðist gera lítið úr þeirri fjármálastjórn, sem þyrfti að binda sig fyrirfram til þess að fara gætilega. En jeg segi honum það, að jeg geri lítið úr þeirri fjármálastjórn, sem ekki gætir allrar varúðar í ráðstöfunum sínum frá fyrstu byrjun. Reynslan hefir sýnt, að það er hverjum einstaklingi hollast að greiða afborganir smám saman af skuldum sínum, en fyrst svo er um einstaklinga, þá gildir öldungis hið sama um fátækt þjóðfjelag. Jeg tel þess vegna, að um öll lán handa ríkissjóði eigi að semja um afborganir frá upphafi. Hitt viðurkenni jeg, að nauðsynlegt sje að taka lán í íslenskum gjaldeyri, en til þess þarf ekki lög, og þó þau væru sett, þá þarf ekki að fljetta þar inn í ný ákvæði, sem eru óheppileg og andstæð góðum venjum, sem fylgt hefir verið hingað til.

Háttv. 1. þm. Reykv. (JakM) misskildi mig, þar sem hann hafði eftir mjer, að afborganirnar af þessum lánum mundu verða of þungbærar. Jeg sagði þvert á móti, að það mundu engar afborganir verða greiddar af þeim, en hitt er auðsjeð, að með því að safna skuld á skuld ofan afborganalaust verður vaxtabyrðin á endanum óbærileg. Leiðinlegt er líka, að undantekningu skuli þurfa eða ný lög, er leita skal stærra láns erlendis. Annars get jeg sagt það sama og nefndin, að mjer er þetta ekki kappsmál, en vildi þó ekki láta þessa umræðu fara fram hjá mjer án þess jeg ljeti skoðun mína í ljósi og gæti þess, sem mjer finst vanhugsað eða varhugavert í frv.