04.05.1923
Efri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í D-deild Alþingistíðinda. (3470)

112. mál, hlutfallið milli eyðslu landssjóðs til starfsmannahalds og verklegra framkvæmda

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Jeg get verið mjög stuttorður um þessa fyrirspurn. Jeg bjóst við, að henni mundi verða svarað fyr, en jeg geri ráð fyrir, að hún hafi þótt nokkuð umfangsmikil. Og þótt einhverjar upplýsingar fáist nú, þá hygg jeg, að mikill hluti svarsins verði að bíða til næsta þings. því gerði jeg þessa fyrirspurn, að jeg áleit, að svarið gæti orðið liður í þjóðhagslegri „statistik“ og væri hægt að sjá á því, hvernig þjóðin hefir komist í fjárhagsvandræði þau, sem hún er nú komin í. Öll árin, sem liðin eru af þessari öld, hefir stefna þingsins verið sú, að fjölga starfsmönnum ríkisins. Þetta hefir orðið ríkissjóðnum vaxandi byrði ár frá ári, og ef slíku er haldið áfram, má búast við því, að ríkissjóðurinn endist ekki til annars en þessa. Það verður því að breyta algerlega skipulaginu á stjórnháttum okkar. Það er margt, sem mætti spara. Jeg hefi komist að því, af viðtali við einn landskjörinn þingmann, sem fór hjeðan í fyrra, að það mætti spara mikið fje við Alþingi, ef tekin væri upp sú ráðbreytni að láta fjárveitinganefndir þingsins koma saman svo sem 3 vikum fyrir þingsetningu. Þá þyrfti ekki að standa á fjárlögunum. Ef hægt væri að stytta tíma þingsins um þriðjung með þessu, þá er í því fólginn eigi lítill sparnaður. Jeg tek þetta sem dæmi upp á eitt af því, sem spara mætti; en annars skal jeg ekki fara frekar út í þetta að svo stöddu.