04.05.1923
Efri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í D-deild Alþingistíðinda. (3472)

112. mál, hlutfallið milli eyðslu landssjóðs til starfsmannahalds og verklegra framkvæmda

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Jeg get verið þakklátur hæstv. fjrh. (KIJ) fyrir að hafa svarað fyrirspurn minni að nokkru leyti, þó að það svar hafi ekki verið eins ítarlegt og jeg í fyrstu ætlaðist til. Mjer þykir mjög merkilegt að heyra, að ritgerð um þetta efni skuli vera til, því að mjer var hún alls ekki kunn áður.

Aðalatriðið, sem fyrir mjer vakir með fyrirspurn minni, er að fá sem glegst yfirlit yfir það, hvernig eyðsla landssjóðs hefir komist í það horf, sem nú er. En það skiftir mig ekki miklu máli, hvort það svar kemur á þessu þingi, eða þá ekki fyr en á því næsta, því jeg sætti mig vel við dráttinn.

Þá skal jeg taka það fram, að jeg get vel gengið inn á, að skýrslan sje miðuð við annaðhvert ár yfir tímabilið fram að stríðsárunum. En jeg vil beina þeirri ósk til hæstv. stjórnar, að skýrslan verði miðuð við hvert ár út af fyrir sig eftir að stríðsárin byrja, því að mjer er forvitni á að vita, hvernig við höfum farið að eyða öllum tekjum ríkissjóðs árlega í alt annað en verklegar framkvæmdir. Jeg hygg, að ekki þurfi að sjá eftir þeirri vinnu, sem hagstofan leggur í þetta, því jeg býst við, að hún verði látin vinna þessar skýrslur. Og þar sem hún er eins seinlát og kunnugt er, mun jeg sætta mig vel við dráttinn, en vænti að fá skýrsluna sundurliðaða yfir stríðsárin og þau ár, sem liðin eru síðan.