12.05.1923
Efri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í D-deild Alþingistíðinda. (3477)

82. mál, lán og ábyrgðir landssjóðs

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Jeg get verið stuttorður um fyrirspurnina, því hún er sjálfskýrð. Jeg óska aðeins að heyra í aðaldráttum, í hve mikilli ábyrgð landssjóður stendur fyrir fjelög og einstaka menn. Áður hafa sumir menn, og líklega sumir þingmenn, álitið alveg hættulaust að skrifa nafn sitt á ábyrgðarskjöl, þótt þeir nú af víxilábyrgðunum sjeu farnir að komast á aðra skoðun, en mjer þætti fróðlegt að vita, hvort landsstjórnirnar hafa ekki fyrir landsins hönd oftar gengið í ábyrgðir og veitt lán en hefði átt að vera. Jeg veit, að ekki mun vera auðvelt að svara fyrirspurninni tæmandi, en svarið getur verið fróðlegt og gagn að, þótt ekki verði skýrðir nema aðaldrættir.