22.03.1923
Neðri deild: 26. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

21. mál, ríkisskuldabréf

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Jeg get tekið undir það með hv. 1. þm. Reykv. (JakM), að þetta er í sjálfu sjer ekkert stórmál, en mjer finst það koma berlega í ljós hjá hv. 3. þm. Reykv. (JÞ), að hann hafi gleymt eða ekki gert sjer skýrt í hugarlund, hvernig vjer stöndum. Orð hans fjellu eins og við værum nú allsendis skuldlausir og værum nú að leggja út á þá hættulegu braut að taka fyrsta lánið. Hann er að tala um gætni í fjármálum og gætna fjármálastjórn, sem verið hafi, eins og vjer hefðum engar skuldir stofnað áður. Og hann var að ræða um lántökur til brúa, vita og fleira, eins og vjer hefðum engar aðrar skuldir að borga. Ef vjer þyrftum aðeins lán til að byggja eina brú, væri ekki nema rjett að dreifa jöfnum afborgunum þess á fleiri ár. En því er ekki að heilsa. Vjer höfum áreiðanlega nógar skuldir til þess að afborga á næstu 25 árunum. Jeg býst fremur við, að strandi á peningaleysi en því, að vjer höfum ekki skuldir til þess að láta peningana fara í. Sömuleiðis verð jeg að mótmæla því fastlega, að hjer sje gengið inn á nokkra ógætnisbraut í fjármálum. Hvað mætti þá segja um öll okkar lán í erlendum gjaldeyri? Jeg er þó ekki að víta þau. Fyrir nokkrum árum hafði víst enginn hugmynd um það, hverja þýðingu slíkt hefði fyrir okkar fjárhag, en nú liggur það opið fyrir, hvort heppilegra er að taka lánin í íslenskum eða erlendum gjaldeyri. Því þurfum við að kosta kapps um, að erlend lán minki, en lánin heldur tekin í innlendum gjaldeyri. Og frv. það, sem hjer liggur fyrir, er eitt spor í þá áttina.