27.04.1923
Efri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í D-deild Alþingistíðinda. (3483)

81. mál, skipting á veltufé, tapi og uppgjöfum bankanna milli atvinnuvega og héraða

Fjármálaráðherra (KIJ):

Hv. fyrirspyrjandi (JJ) gat þess í upphafi ræðu sinnar, að langt væri um liðið síðan hann bar fyrirspurn þessa fram. Það er satt að vísu, en þegar er fyrirspurnin kom fram, skrifaði stjórnin báðum bönkunum og bað þá að láta í tje nauðsynlegar upplýsingar. Nú eru svörin komin frá bönkunum, og það síðara er dagsett 17. apríl, svo jeg vona, að hv. fyrirspyrjandi geti ekki sagt, að jeg hafi legið lengi á þessu.

Ef svara ætti fyrirspurn þessari svo ítarlega, sem gert er ráð fyrir af spyrjanda, þá yrði það langt mál. En svar mitt verður mjög stutt að þessu sinni. Landsbankinn segir svo í brjefi sínu út af fyrirspurninni, að með því að bankinn hafi ekki áður látið fara fram slíka sundurliðun og um ræðir í fyrirspurninni, hvorki í aðalbankanum nje útibúunum, og þar eð þetta sje afarmikið og seinlegt verk, ef það eigi að framkvæmast nákvæmlega, og þar eð starfsfólk bankans sje nú sem stendur önnum kafið, og svo standi yfir ársreikningagerðaskil bankans, þá sjái bankastjórnin sjer ekki fært að svo stöddu að láta í tje hinar umbeðnu upplýsingar. Hins vegar sje bankastjórnin fús til strax og henni vinnist tími til þess, að láta framkvæma sundurliðun þá, er um getur í fyrirspurninni, svo framarlega sem stjórnin óskar þess.

Enn fremur segir bankastjórnin, að þetta sje ekkert áhlaupaverk; til þess þurfi að minsta kosti 2 menn í 3 mánuði, og það menn, sem kunnugir sjeu í bankanum og geti farið í útibúin og gert þar upp á sama grundvelli, en þeir menn sjeu nú svo önnum kafnir, að ekki geti komið til mála að sinna þessu fyr en ársskilum bankans sje lokið.

Jeg geri nú ráð fyrir, að stjórnin telji þetta svo mikilsvert atriði, að hún noti sjer tilboð Landsbankastjórnarinnar. Þá getur Landsbankinn líka farið sjer hægt með þetta, en sundurliðunin verið tilbúin fyrir næsta þing.

En Íslandsbanki svarar á þá leið, að til þess að unt sje að svara ítarlega umgetinni fyrirspurn, þá þyrfti fyrst að fara fram svo nákvæm skoðun á öllum lánsskjölum bankans og útibúa hans, að óhugsandi sje að ljúka þeirri skoðun fyrir þinglok.

Bankastjórnin fer ekki ítarlega inn á þetta, en jeg geri ráð fyrir, að hún muni líka fús til þess að gefa sundurliðaða skýrslu, sem tilbúin yrði fyrir næsta þing. Fleira get jeg ekki að svo stöddu svarað þessari fyrirspurn.