07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (3499)

1. mál, fjárlög 1924

Forsætisráðherra (SE):

Út af því, sem sagt hefir verið um Eyrarbakkaspítalann, vil jeg geta þess, að landlæknir kvað mikla nauðsyn á þeim spítala og mælti mjög með því, að hann yrði reistur. Þá er það einnig kunnugt, að Alþingi tók mjög vel í það mál og lofaði óvenjumiklu fje til spítalabyggingarinnar, svo ekki er hægt að segja, að stjórnin hafi ekki haft neitt aðhald úr þeirri átt. Það má vera, að fundargerðir sýslufundanna þarna eystra hafi verið í loðnara lagi. En þó ekki meir en svo, að altaf hefir verið talið víst, að Árnessýsla ætlaði sjer að leggja þetta fje til spítalans, þótt það drægist svo á langinn. Þessu til stuðnings skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp eina fundargerð. frá 20. maí 1920. Hún er svo hljóðandi:

„Sýslunefndin heitir fulltingi sínu til sjúkrahúsbyggingar hjer o. s. frv.

Þó með þeim breytingum, að nú sje ekki miðað við neina ákveðna hámarksupphæð frá sýslunni, heldur lofar sýslufjelagið alt að helmingi á við væntanlegt landssjóðstillag. er kemur til framkvæmda og greiðslu, er hagur sýslunnar leyfir og fjárhagur skánar frá því, sem nú er“.

Þegar nú stjórnin hafði þessar fundargerðir við að styðjast, og auk þess yfirlýsingu landlæknis um mikla nauðsyn þessa máls, og svo þessa yfirlýsingu spítalanefndarinnar, þar sem einstakir menn taka á sínar herðar mikla ábyrgð, ef illa færi, var þá ekki eðlilegt, að hún borgaði þetta fje, sem svaraði til þess, er sýslan skyldi greiða? Henni datt auðvitað ekki annað í hug en Árnessýsla myndi borga þessar 40 þúsundir. Undir eins og grunsemd hennar var vakin, sendi hún skeyti til að fá nákvæmar upplýsingar í málinu. Og þegar henni þótti svarið, sem hún fjekk, grunsamlega loðið. neitaði hún að borga út það, sem eftir var — 30 þúsund krónur. Okkur datt alls ekki í hug, að sýslunefndin leyfði hreppnum að taka spítalann að sjer og kipti svo að sjer hendinni, er mest reið á. Ástæður stjórnarinnar eru þessar í málinu, að henni þótti rjett, er málið var svo langt komið og góðir menn búnir að binda sig ábyrgðum, að borga þetta fje, í því trausti, að sýslan borgaði það, sem henni bæri. Jeg veit, að það er komin talsverð pólitík í þetta mál þarna eystra, og því vafasamt, hvað verður þar ofan á. En hvað sem öðru líður, lít jeg svo á, að málið sje komið í það horf nú, að það verði að finna einhverja leið til að bjarga því. Og því verð jeg sömuleiðis að halda fram, að ekki sje hægt að víta stjórnina fyrir gerðir hennar í því hingað til.