28.03.1923
Neðri deild: 31. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í C-deild Alþingistíðinda. (3503)

61. mál, samvinnufélög

Ingólfur Bjarnarson:

Jeg skal lofa því að þreyta ekki háttv. deild með langri ræðu. Jeg vildi aðeins gera litla athugasemd við það, sem hv. þm. Borgf. (PO) sagði um deildafyrirkomulagið. Mjer skildist á honum, að þetta frv. lyti að því að koma á því fyrirkomulagi og hlynna að því. En þetta er villandi; deildafyrirkomulagið er hið elsta skipulag samvinnufjelaganna hjer á landi, sem hefir reynst mjög vel. En með frv. þessu er gerð veruleg tilraun til að stórspilla því. Að því er jeg veit best, eru kaupfjelögin í Þingeyjarsýslu elst hjer á landi, og fjelagsskapur þeirra einmitt bygður á þessu skipulagi: deildum, sem hafa innbyrðis ábyrgð, en ábyrgjast svo fyrir fjelagið í heild að auki. Þetta frv. fer aðeins fram á að fella burt fjelagsábyrgðina, og tel jeg það mjög óheppilegt. Það er auðsætt, að ef ábyrgðaákvæðin út á við eru numin burt, þá er lánstrausti fjelaganna hætta búin. En miðar hins vegar á engan hátt til tryggingar því, að hver deild fari varlegar í stofnun skulda en ella, eins og hv. þm. Borgf. (PO) vildi gefa í skyn. Það er blekking, sem enga stoð hefir í breytingartillögunni, eins og öllum er auðsætt.

Hv. þm. Borgf. (PO) kvaðst hafa svarað spurningu minni áðan, hvað meint væri með frv., með því, hvað deildafyrirkomulagið sje heppilegra en hitt. Þetta er sagt út í hött. Jeg er enn jafnnær sem áðan og sje ekki, að það sje neitt heppilegra, þótt numin sje burt ábyrgðin út á við, nema síður sje. Trygging fjelagsins gagnvart deildunum er sú sama eftir sem áður. Varfærni deildarinnar verður sjáanlega síst minni, þótt deildarmenn beri líka ábyrgð á öllum skuldbindingum fjelagsins.

Mjer kom dálítið kynlega fyrir, að mjer skildist á hv. þm. Borgf. (PO), að Kaupfjelag Borgfirðinga hafi haft ótakmarkaða ábyrgð. Jeg held því fram, að það hafi aldrei haft hana, og leyfi mjer þess vegna að skoða umsögn þm. um þetta atriði dálítið villandi.

Það, sem er um að ræða í þessu frv., er ekki það, hvort heppilegt skuli teljast að skifta fjelögunum í deildir, heldur hitt, að losa deildirnar við ábyrgðina fyrir fjelögin. Tel jeg það stórt tap, ef þetta væri innleitt, því ef svo væri, þá stæði öllum opið að taka það upp. Og þótt svo færi, að fjelögin glæptust ekki á að taka það upp, þá er jafnóviðfeldið að setja slíka heimild í samvinnulögin.