22.03.1923
Neðri deild: 26. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

21. mál, ríkisskuldabréf

Frsm. (Jakob Möller):

Mig furðar dálítið á afstöðu hv. samþm. míns (JÞ), þar sem hann talaði um það, að ekki mætti taka ný lán, ef ekki væru nógir peningar til að greiða hin gömlu. Hví segir þá ekki háttv. þm.: Úr því við getum ekki borgað allar okkar skuldir í dag. megum við ekki hafast neitt að, ekki framkvæma neitt. Hjer er talað um lántöku til bygginga og framkvæmda, sem ekki er gert ráð fyrir, að lokið verði fyr en eftir um 25 ár. Og í því gæti verið samræmi að segja, að ekki ætti að eiga við neinar framkvæmdir, sem lánsfje þarf til, fyr en goldið væri það lánsfje, sem þegar er tekið til annars. Annars er það þýðingarlaust, hvort eitthvað er borgað af í ár og tekið því hærra lán næsta ár. Jeg hygg annars, að nú sje borgað árlega eins mikið af áhvílandi skuldum og frekast þykir unt, þó við munum annars hafa nógar skuldir að burðast með í náinni framtíð. Mjer þótti háttv. þm. (JÞ) líka gera of lítið úr því í þessu sambandi, hvað mannvirkin gætu eða mundu endast, og af því er sennilega sprottinn ótti hans við það meðfram, að afborganir af lánum muni reynast of þungar. En það má vera ljeleg brú, sem ekki endist í 25 ár, svo að jeg held, að þar sje ekkert að óttast.