30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

92. mál, hlunnindi

Jón Baldvinsson:

Það ætlar að verða furðulítið rætt um þetta mál, og gefur það bendingu um það, að forlög þess sjeu fyrirfram ákveðin og háttv. þm. telji, að það sje víst hvernig fari og má vel vera að svo sje. Jeg vildi þó gera fáeinar athugasemdir, en lofa þó hv. deild um leið að lengja ekki umræðurnar fram úr hófi, því afstaða mín til þessa máls er óbreytt frá því, er það var til 1. umr.

Jeg vil þá fyrst lýsa yfir því, og leggja áherslu á það, að svo virðist ekki sem skortur sje á fje hjer í landi eins tilfinnanlegur og forgöngumenn þessa fyrirtækis vilja vera láta. Það hefir verið látið ómótmælt, að Landsbankinn geti útvegað erlendis það fje, sem þurfi til rekstrar atvinnuveganna. Og hvað segja svo þessir bankar hvor í sínu lagi og báðir? Aðalbankastjórinn við Íslandsbanka, Eggert Claessen, segir svo í grein, sem hann skrifaði nýlega: „Hefir ekki mjer vitanlega skort rekstursfje til nokkurs verslunar- eða atvinnufyrirtækis, sem bankarnir hafa talið stuðningsvert.“ Og fyrst Íslandsbanki treystir sjer svona vel, þá efast víst enginn um það, að Landsbankinn muni ekki síður vera fær um að veita lánsfje. Enda hefir það upplýst um Landsbankann, að hann hafi yfir fje að ráða svo miljónum skifti, sem liggi í sjóði. Bendir þetta í þá átt, að þörfin sje ekki svo afskaplega mikil á auknu lánsfje til verslunar- og atvinnufyrirtækja. Vert er líka að athuga, að það fje, sem kemur með þessum banka inn í landið, fer alt út úr landinu aftur og arðurinn með, í stað þess að arðurinn af erlendu lánsfje, sem t. d. Landsbankinn tekur, verður kyrt í landinu.

Þá hefði athugasemdin við fyrirhugað leyfi í 1. gr. frv. átt að standa í sjálfu frv., að vissa væri fyrir þátttöku þektra erlendra banka og fjesýslumanna. Er aðeins lítillega á þetta minst í nál.

Hjer er talað um það að veita ákveðnu hlutafjelagi ýms hlunnindi. En þó hafa komið fram sáralitlar upplýsingar um þetta hlutafjelag. Það má að vísu vera, að nefndin hafi haft fyrir sjer lög þess, eða eitthvað slíkt, og þó fjelagið sje fyrirhugað fyrir alllöngu, hefi jeg ekki orðið þess var, að það hafi verið skrásett ennþá. En þó þessum einstöku mönnum, sem hjer er um að ræða — og jeg er ekkert að lasta þá persónulega — sje veitt þetta leyfi, þá er vitanlegt, að þeir leggja ekki fram neitt stórfje til þessarar bankastofnunar. Og það er ekki mikilsvirði til þess að bæta úr fjárskorti hjer, þótt þetta yrði gert með því að taka slíkt fje út úr hinum bönkunum og nota það í þessum nýja banka. En svo er annað athugavert, og það er það, að í þessu efni er upplagt að selja leyfið öðrum fyrir stórfje. Jeg er ekki að segja, að þessir menn mundu gera það, en jeg segi hitt, að dæmi sjeu til þess, að slík leyfi hafi verið veitt á nafn einstakra manna og síðan seld út um öll lönd, og ekki altaf til gagns fyrir landið eða landsmenn.

Þá skal jeg víkja að því, sem talað hefir verið um, að þessi fyrirhugaði banki ætti að fá fje frá Noregi. En í því sambandi vil jeg nú benda á það, að svo er nú síðustu dagana komið sumum stærstu bönkunum þar, að þeir hafa stöðvað greiðslur. En þótt svo væri, að þetta fyrirhugaða fje fengist þarna erlendis, þá er það svo, að þótt 1–2 milj. sje stór upphæð fyrir einstaklinginn, þá munar lítið um það fyrir heila þjóð. En með því fáum við hins vegar nýja hættu, eins og reynslan hefir þegar sýnt um Íslandsbanka, þar sem aðallega var hugsað um hag hluthafanna. Annars þýðir það kanske ekki mikið að vera að ræða málið, en jeg, að minsta kosti, ætla ekki að greiða því atkvæði.