30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

92. mál, hlunnindi

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Úr því aðrir hafa orðið til þess að tefja tímann með því að teygja umræður um þetta mál, get jeg ekki komist hjá því að gera aftur nokkrar athugasemdir, þar sem það gæti annars valdið misskilningi, ef jeg drægi það til 3. umræðu.

Háttv. þm. Ak. (MK) sagði, að erfitt væri að færa sönnur á það, sem jeg sagði, að stofnun nýs banka yrði til hags fyrir þá gömlu. En jeg verð þó að segja það, að það er bönkunum til hags, á hvern hátt sem greitt er úr gjaldeyriskreppunni, þó ekki sje beinn fjárhagslegur hagnaður að því. Annars lagði þessi háttv. þm. aðaláhersluna á það, að nýr banki mundi verða til þess að auka skuldir landsins út á við. Þetta getur nú til sanns vegar færst að vissu leyti, því sem sje, að mönnum væri þó gefinn kostur á stofnun nýrra fyrirtækja. En það verður auðvitað bankans að skera úr því, hvaða fyrirtæki sjeu góð og hver ekki. En ef bankinn styður menn til óheilbrigðra fyrirtækja, — sem ekki er hægt að ganga út frá —, þá kemur það fyrst og fremst sjálfum honum í koll.

Þá vildi þessi sami háttv. þm. vefengja það, sem jeg sagði um það, að Íslandsbanki væri að nokkru leyti þjóðbanki, — því annað sagði jeg ekki. En hann er það vitanlega einmitt að því leyti sem hann er seðlabanki, auk þess sem hann er nú undir stjórn ríkisins og nýtur sjerstakra hlunninda og að ríkið hefir gengið í ábyrgð fyrir hann. Þar fyrir fer því þó auðvitað fjarri, að ríkið eigi að bera allan vanda af honum.

Þá var háttv. þm. að vitna í nál. frá 1920, sem jeg hefði skrifað undir, en ekki væri í samræmi við það, sem jeg væri nú að halda fram. En þetta er hreinn misskilningur. Í þeim banka, sem hjer er um að ræða, eru innlendum mönnum trygð yfirráðin, með því að meiri hluti í stjórn hans eiga að vera íslenskir menn, búsettir á Íslandi, og með því að skylt er að bjóða út meira en helming hlutafjárins innanlands. Í nál. frá 1920 er vitanlega fyrst og fremst átt við þetta.

Í nál. frá 1920 er sagt, að sumir nefndarmenn hafi lagt áherslu á það, að þingið setti ákvæði um það, hvað gróði banka mætti verða mestur. Með þessum ummælum er ekki átt sjerstaklega við þennan fyrirhugaða nýja banka. Þetta er sagt alment og má altaf setja lög um það. En í frv., sem hjer er um að ræða, er líka gengið lengra í þessu efni en í till. frá 1920, því nú er áskilið, að bankinn greiði 25% af þeim hluta ársarðsins, sem fram yfir er 200 þúsund krónur.

Ennfremur sagði hv. þm. (MK), að ekki væri glæsilegt að ráðast í slíkt fyrirtæki sem þetta nú, þar sem horfur væru á tapi á öllum atvinnurekstri. En ef hann trúir þessu sjálfur, hvers vegna getur hann þá verið á móti því að dreifa þessari áhættu á fleiri hendur, að ljetta nokkru af henni af Íslandsbanka og Landsbankanum? — Jeg man svo ekki eftir því, að jeg þurfi að gera fleiri athugasemdir við ræðu hv. þm. Ak. (MK), því það, sem hann þóttist hafa eftir mjer úr framsöguræðu minni, um það, að þetta hefði verið gert að flokksmáli Framsóknarflokksins, sem sje að vera á móti málinu, þá er það misskilningur, því meðal flutningsmannanna sjálfra eru menn úr þeim flokki. Hins vegar mun jeg hafa sagt það um hv. samþm. minn. 2. þm. Reykv. (JB), að sá flokkur, sem að honum stendur, hafi gert andstöðuna við þetta mál að flokksmáli. Annars vil jeg aðeins bæta við þetta einni athugasemd enn, sem jeg gleymdi áðan. Það er sem sje misskilningur minni hlutans, að ætlast sje til þess, að bankinn verði laus við fasteignaskatta. En þessari staðhæfingu má ekki vera ómótmælt, því að bankinn á aðeins að vera laus við skatt af atvinnurekstri.

Hv. 2. þm. Reykv. (JB) þarf jeg ekki að svara miklu. Hann sagði, að nýr banki væri óþarfur, því enginn skortur væri hjer á veltufje. Þetta sama var líka staðhæft 1920 — meðan þingið stóð. En hvernig fór svo eftir að þingi lauk? Svo, að yfirfærslur stöðvuðust svo að segja alveg nokkru seinna. Þá talaði þessi hv. þm. um það, að allur ágóðinn færi til annara landa. Ja — hvernig er hægt að búast við því að fá lánsfje án þess að greiða vexti af því? En það er auðvitað ekki sama sem að allur gróðinn fari út úr landinu, því gróði þeirra fyrirtækja, sem bankinn styrkir, verður eftir í landinu sjálfu. Gróðinn af þeim fyrirtækjum, sem ekki yrðu stofnuð eða rekin að öðrum kosti, yrði hreinn gróði landinu til handa.

Þessi sami háttv. þm. talaði einnig um hættu á því, að bankaleyfið gæti gengið kaupum og sölum erlendis. Hann ætti þó að geta vitað það, að í 1. gr. frv. er ákveðið, að engin hlunnindi skuli veitt fyr en bankinn er stofnaður, og þá getur það að sjálfsögðu ekki komið til mála, að leyfið gangi kaupum og sölum. Þetta er heldur ekki sambærilegt við það leyfi, sem hann mun hafa átt við, sem sje leyfi til saltvinslu úr sjó hjer. Þar var um fullkomið einkaleyfi að ræða, sem veitt var ákveðnum manni, án þess að áskilið væri, að hann hefði nokkrar framkvæmdir þegar í stað. Þá spurði hv. þm. (JB) um það, hvort nefndin hefði fengið nokkrar upplýsingar um fjelagið, sem bankann ætli að stofna, eða hvort það væri skrásett. En enn þá verður aðeins að benda honum á það að lesa frv. sjálft, því þar stendur, að fjelagið sje fyrirhugað. Það liggur því í hlutarins eðli, að það hefir ekki verið skrásett. Loks talaði háttv. þm. um ástand norsku bankanna í þessu sambandi, og má vera, að bankakreppan í Noregi geti haft einhver áhrif á þetta mál, og þó varla veruleg. Það er heldur ekki rjett, að 1–2 miljónir, sem hann gerði ráð fyrir af útlendu fje, gætu ekki gert hjer neitt gagn, þó ekki væri meira. Má í þessu sambandi benda á umtalið um það, að 3–4 milj. lán mundi nægja til þess að stöðva gengi kr. Ef bankinn yrði stofnaður, ætti væntanlega ekki að þurfa nema 2 milj. til þess.