30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

92. mál, hlunnindi

Jón Baldvinsson:

Jeg vildi minnast dálítið á nokkur atriði í ræðu hv. 1. þm. Reykv. (JakM), en skal þó ekki lengja umr. mikið. Viðvíkjandi því, sem jeg sagði, að mestur gróðinn af bankanum mundi fara út úr landinu, þarf jeg ekki annað en að benda á það, að hugsunin mun vera sú að fá megnið af starfsfje bankans frá útlöndum, og eðlileg afleiðing þess er sú, sem jeg nefndi áðan, að gróðinn af þessu starfsfje rennur líka út úr landinu. gagnstætt því sem t. d. er um Landsbankann. Háttv. þm. vildi heldur ekki viðurkenna, að samband væri milli þessa banka og þeirra annara einkaleyfaveitinga, sem jeg drap á. Það er þó bersýnilegt, að ríkisstjórnin getur ekki veitt neinum öðrum en þeim, sem í frv. eru nefndir, þessa heimild, ef frv. verður samþykt, og þar af leiðandi er með frv. um einkaleyfi að ræða handa þessum mönnum, eða alveg það sama og jeg var að tala um í fyrri ræðu minni.

Þá held jeg, að reynslan hafi sýnt, að hagur hluthafanna og landsins þarf ekki altaf að fara saman. Er Íslandsbanki gott dæmi þess. Lengra þarf ekki að leita. Skilst mjer, að svo muni fara hjer, að það verði þeir, er fjeð leggja fram, sem komi til að hafa yfirráðin.

Raunar er það sagt, að meiri hluti bankastjórnarinnar — í svigum er orðið „bankaráð“ haft aftan við — eigi að verða íslenskir menn, búsettir hjer, en þetta er óljóst orðað, og hefi jeg áður bent á það. Sje ætlunin sú, að aðeins meiri hl. bankaráðsins sjeu íslenskir menn, gefur það ekki miklar vonir, eftir reynslunni, sem við höfum af bankaráði Íslandsbanka. Hæstv. forsrh. (SE) hefir í öðru máli gefið þær upplýsingar eða skýringar á starfsemi bankaráðsins, að það gæti ekki verið að hlaupa niður í banka og reikna út gengi; og fleira mun það vera, sem því mun ekki vera talið skylt að gera, þótt nauðsyn væri á því. Mundi eins verða hjer. Þeir, sem í bankaráðinu yrðu, hefðu öðrum störfum að gegna og skoðuðu þetta sem aukastarf. Niðurstaðan yrði því sú, að það yrðu erlendu hluthafarnir, sem rjeðu flestu um starfsemi bankans.

Mestum vandkvæðunum nú veldur það, hve erfitt er að fá fasteignalán í bönkunum, en úr þessu verður ekki bætt með þessari bankastofnun og ekki fyr en Ríkisveðbankinn kemur. Lægi nær að vinna að því, að hægt yrði að hleypa honum af stokkunum sem fyrst.

Þessi nýi banki mundi ekki fást við slíka lánsstarfsemi. Hann mundi eingöngu verða verslunar- og útgerðarbanki, eftir því sem hv. frsm. meiri hl. hefir sagt, en aðgætandi er, að stærri bankinn hjer hefir lýst því yfir, að enginn hörgull væri á fje til þessara fyrirtækja, og sýnist því þessi bankastofnun alóþörf.