30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

92. mál, hlunnindi

Jón Auðunn Jónsson:

Það er allóviðkunnanlegt, en þó er farið að bera talsvert á því meðal háttv. þm., að spurt sje fyrst að því, hvort aðrir ætli að taka til máls, ella ætli þeir ekki að tala; lítur þetta helst út sem tilraunir til þess að fella niður umræður um málin.

Jeg ætla að byrja með því að lýsa því yfir, að jeg er ekki flm. þessa frv., enda ekki neitt sjerlega umhugað um, að það gangi fram á þessu þingi. Háttv. frsm. minni hl. segist ekki vilja stuðla að því, að tekin sjeu meiri lán erlendis, og í því er jeg honum sammála, ef ríkið á að bera ábyrgð á þeim lánum. En ef erlendir fjesýslumenn vilja lána á sína ábyrgð landsmönnum meira veltufje, þá er jeg hins vegar ekki mótfallinn því, að þeir geri það. Menn greinir allmjög á um það, hvort þörf sje á meira veltufje hjer í landinu, og skal jeg ekki dæma þar í milli, vegna þess að jeg er starfsmaður við bankafyrirtæki. En jeg veit, að það kemur oft fyrir, að mönnum er neitað um fje, þótt nógar sjeu tryggingar og góð fyrirtæki og þörf eigi í hlut. Ástæðan getur vel verið sú, sem háttv. frsm. minni hl. (MK) tók fram, að bankarnir álíti óráðlegt að leggja fje í atvinnufyrirtæki eins og stendur, af því að slík fyrirtæki eigi erfitt uppdráttar. En þetta er alveg ófær leið. Bæði einstakir menn og bankar verða oft að leggja í fyrirtæki, þótt þau gangi illa. Það er ekkert betra, að fje þeirra fari á annan hátt í súginn, sem mun verða, ef atvinnufyrirtæki stöðvast og alment atvinnuleysi, sem er afleiðing þess, skellur yfir þjóðina. Kæmi alment atvinnuleysi, verða menn að grípa til sparifjár síns og innstæðna bönkunum, en það er vitanlegt, að langmest veltufje bankanna er fengið sem sparisjóðs- og innlánsfje. Mundi þá ekki vera skárra, þótt eitthvað tapaðist á hinum og þessum atvinnufyrirtækjum?

Jeg held, að í þessu máli horfi menn of fast á Íslandsbanka, — að hann hefir tapað fje og ríkið orðið að veita honum lán. En menn verða að gæta að því, að hann hefir sjerstöðu, þar sem hann er aðalseðlabanki ríkisins. Þessi banki, sem frv. ræðir um, hefir engin slík sjerrjettindi. Hv. þm. Ak. (MK) sagði, að það lægi nær að stofna Ríkisveðbankann eða samvinnubankann, og það skal jeg játa, — ef þeir gætu fengið nægilegt starfsfje. En til rekstrar veðbanka ríkisins er ekki hægt að taka lánsfje með háum vöxtum. Jeg ætla ekki að fara að vekja upp deilur um þetta mál frá 1921, en reynslan hefir síðan sýnt, að jeg og hv. þm. Mýra. (PÞ) höfðum þá rjett fyrir okkur í þessu máli.

Hæstv. atvinnu- og fjármálaráðherra (KIJ) hefir margsinnis sagt, að ekkert fje sje enn handbært handa Ríkisveðbankanum; en það má öllum vera ljóst, að það eykur ekki veltufje í landinu, þótt bönkum þeim, sem þegar eru til, sje skift sundur í sjálfstæðar deildir; það yrði aðeins til að auka við nýjum starfsmönnum.

Háttv. þm. Ak. nefndi mótorskipakaupin; en hann gleymdi þá að geta þess um leið, að því aðeins rjeðust menn í þessi skipakaup, að það var orðið ókleift að notast við þá farkosti, sem menn höfðu áður haft. Fiskurinn hefir horfið af grunnmiðunum, og varð því ekki stundaður sjór lengur á sama hátt og áður hafði tíðkast, og þótt nokkrir útgerðarmenn hafi tapað á þessari tilbreytni, hafa sjómennirnir notið góðs af því bæði í bættri atvinnu, betri aðbúnaði og minni lífshættu. Það er og enginn efi á því, að þessi stækkaði útvegur hefir sparað fjölda mannslífa, og jeg mótmæli því, að í þetta hafi verið ráðist í þeim tilgangi að „spekúlera“. — Það voru aðeins sjálfsagðar tilraunir manna til þess að bjarga sjer.

Jeg veit ekki, hvernig hv. 2. þm. Reykv. (JB) hefir getað fengið það út úr nefndarálitinu, að nefndin sje að gefa í skyn, að hún viti um erlenda banka eða fjármálamenn, sem standi að málinu. Nefndin er að skora á ríkisstjórnina að veita ekki leyfi, nema hún (ríkisstjórnin) viti fyrirfram um, að svo sje. Þetta er aðeins varnagli, sem er sleginn af nefndinni.

Um þau atriði, sem hv. frsm. minni hl. (MK) sagði, að vantaði í þetta frv. í samræmi við nál. fjárhagsnefndar 1920, gæti hann gert brtt. og komið fram með þær við 3. umr. En jeg hygg, að samkvæmt lögunum um hlutafjelög, sem nú gilda, verði meiri hluti stjórnar þessa nýja banka, eða bankaráðsins, að vera innlendir menn, og eru því þar með trygð innlend yfirráð yfir þessu fyrirtæki. Um gróða bankanna má segja, að hann takmarkast af vöxtunum, en það er venja annarsstaðar, að þjóðbankarnir ákveði vextina í hvert sinn, og það verður líka hjer, eftir að þjóðbankinn tekur seðlaútgáfurjettinn.

Jeg er fús á að taka til athugunar allar breytingar, sem miða til bóta á þessu frv., en það er ekki til neins að vera að veita heimild til þessa fyrirtækis, ef skilyrðin eru algerlega óaðgengileg. Það er ekki tilætlunin með þessum heimildarlögum, að þau gildi lengur en sjerleyfi Íslandsbanka. eða til ársins 1932. Allir vita, að enginn nýr banki getur starfað hjer á landi, meðan bankar eru fyrir, sem njóta ýmsra sjerrjettinda og hlunninda, án þess að fá einhver hlunnindi.