02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (376)

92. mál, hlunnindi

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Jeg skal taka það fram, að meiri hluti nefndarinnar hefir ekki haft tækifæri til að bera sig saman um þessar brtt., sem fram eru komnar. En jeg hygg, að mjer sje óhætt að lýsa yfir fyrir hönd meiri hl., að hann muni ráða háttv. deild frá að samþykkja nokkrar þeirra. Viðvíkjandi brtt. á þskj. 510 og 517 skal jeg vekja athygli á því, að það gjald, sem nú er ætlast til að þessi banki greiði í ríkissjóð, er talsvert hærra en ráð var gert fyrir af samvinnunefnd fjárhagsnefnda 1920. Mjer skildist svo, að háttv. þm. Ak. (MK) viki að því, að nefndin færi nú vægara í skattakröfurnar fyrir hönd ríkissjóðs heldur en 1920. En það er þveröfugt. En hv. þm. hefir væntanlega ekki athugað, að í till. frá 1920 var ætlast til, að miklu meira fje væri frá dregið áður en farið var að greiða í ríkissjóð. Samkvæmt till. nefndarinnar 1920 átti nefnilega að draga frá 15% af hlutafjenu fyrst, en samkv. till. nefndarinnar nú aðeins 5% af því og 10% af ársarðinum.

Það er því auðsætt, að þótt hundraðsgjaldið sje lægra nú en 1920 af þeirri upphæð, sem skatt á að greiða af, þá þýðir það engan veginn það, að skatturinn hefði orðið hærri samkvæmt till. nefndarinnar 1920.

Kemur það líka greinilega fram í nefndarálitinu 1920, og var líka haldið fast fram í nefndinni af sumum, að eiginlega ætti bankinn alveg að vera skattfrjáls þangað til rjettindi Íslandsbanka væru útrunnin, og hefi jeg orðið var við, að sú skoðun er rík hjer enn þá. Nú er um það að ræða, hvort þingið vill greiða fyrir bankanum, og álit okkar í meiri hl. nefndarinnar er það, að meira virði sje að fá bankann en að skatturinn sje hafður mjög hár.

Að því er snertir 2. og 3. brtt. á þskj. 510, þá ætla jeg að þær till. skifti heldur litlu máli og sjeu óþarfar. Það er ekkert unnið við að lengja útboðstímann um ár. Því þeir, sem ætla sjer að kaupa hlutabrjef, munu ekki þurfa lengri tíma til að ráða það við sig en ráð er gert fyrir í frv. Það yrði því aðeins til að tefja fyrir bankastofnuninni um ár.

Það er einnig þýðingarlítið atriði, hvort 1 eða 2 endurskoðunarmenn eru kosnir af landsstjórninni. Virðist vera alveg nóg eftirlit fengið með einum. Annars er komið fram hjer í þinginu frv. um lögskipaðan eftirlitsmann banka og sparisjóða, og myndi þetta starf að sjálfsögðu hverfa undir hann. Annars geri jeg ekki ráð fyrir því, að það hafi nokkur áhrif á stofnun bankans, hvort þessar till. verða samþyktar eða ekki.

Um brtt. háttv. 1. þm. Rang. (GunnS) verð jeg að segja það, að hún verður varla skoðuð öðruvísi en sem tilraun til þess að koma í veg fyrir stofnun bankans. Hann er svo kunnugur fjármálastarfsemi, að honum ætti að vera það ljóst, að þó að unt væri að fá 2 milj. kr. hlutafje handa bankanum, þá gæti verið ómögulegt að fá 3 milj. Hann hefir máske rekið sig á einhvern tíma, að ekki er ávalt unt að fá eins mikið rekstrarfje eins og máske væri æskilegast í hvert skifti. Þeir, sem vilja bankanum vel, vilja hafa hann sem öflugastan, og ef hægt er að auka fjármagn hans, þá er það heldur ekki skorðað við 2 miljónir, heldur má auka það upp í 6 miljónir, og verður það vitanlega gert, ef ástæður verða til þess. Þess vegna er till. alveg óþörf, en hún getur hins vegar orðið þess valdandi, að bankinn verði alls ekki stofnaður.