09.05.1923
Efri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

92. mál, hlunnindi

Björn Kristjánsson: Það er í raun og veru lítil ástæða fyrir mig að standa upp í máli þessu, þar eð engin þau andmæli hafa komið fram gegn málinu, er flutt væru með nokkrum rökum. Mál þetta var athugað lengi í hv. Nd., og ætti því að vera vel undirbúið, og eins og hv. þingdeildarmönnum mun kunnugt, þá var það samþykt í hv. Nd. með 17:11 atkv.

Jeg hjelt, að þingveran mín yrði ekki svo löng, að fyrir kæmi, að jeg ætti í annað sinn að greiða atkvæði um nýja bankastofnun. En það er nú komið á daginn, að í dag verð jeg að greiða atkvæði um það, hvort bæta eigi einum nýjum hlekk inn í keðju andlegrar og efnalegrar framþróunar hjer á landi. Þegar jeg hafði síðast tækifæri til að greiða atkvæði hjer um stofnun nýs banka, 1901, þá stóð líkt á og nú, að framþróun atvinnuveganna var að stöðvast vegna veltufjárskorts, en íslensk króna hjelt þá þó fullu gildi sínu. Að því leyti til var miklu betur ástatt en nú.

Þótt stofnun Landsbankans 1885 væri framkvæmd með litlum efnum, þá komst þó dálítið skrið á þróun atvinnuveganna á árunum 1885 til 1905. Þannig hafði bankinn með útibúum sínum komið fjársöfnun í sparisjóði upp í 21/2 miljón kr. og útflutningi vara upp í um 12 milj. kr.

En eftir að Íslandsbanki tók til starfa og fór sjerstaklega að gefa sig að framleiðslunni, óx hún hraðfara, og það svo, að 1914 flutti landið út vörur fyrir um 40 miljónir króna. Og árið 1921 nam útflutningurinn 44 milj. kr. Og það ár hafði sparisjóðsfje bankanna beggja komist upp í um 301/2 miljón króna. fyrir utan aukið sparisjóðsfje í sparisjóðum annarsstaðar á landinu.

Hvað er það nú, sem valdið hefir þessum stóraukna þjóðarauði? Er það stafandi af því, að menn leggi nú meira á sig í landinu en áður? Nei, þvert á móti; menn leggja nú yfirleitt minna á sig en menn gerðu í mínu ungminni. Þessi vöxtur þjóðarauðsins og atvinnuveganna hlýtur því að vera auknu veltufje að þakka, og sjerstaklega að Íslandsbanki var stofnaður.

Það hlýtur því að vera öllum ljóst, að úr því það reyndist rjett að stofna Íslandsbanka 1901, eins og velta landsins var lítil þá, þá er engu minni — já, miklu meiri — ástæða til að stofna þriðja bankann nú.

Og þörfin er því brýnni, sem króna vor er nú fallin í verði og atvinnuvegir vorir standa nú að kalla má í sjálfheldu.

Það hefir verið jafnan mín heitasta þrá, að bankar þessa lands kæmust út frá öllum afskiftum pólitískra flokka þessa lands, að bankarnir gætu losnað undan flokkspólitíska foraðinu. Það þráði og Íslandsbanki, en örlögin hafa búið honum aðra sæng, þá, að vera bolti í höndum óhlutvandra manna og blaða, sem vilja ná honum á vald hins nýja kommúnista ríkis.

Enginn sjer nú, hvernig því máli lýkur, því almenningur mun ef til vill ekki hafa opnað augun enn fyrir hættunni.

Og almenningur mun, einkum í sveitum, vera kominn í spennitreyju skulda og ófrelsis, og auðvaldið því búið að spenna greipar um hann í nýrri auðvaldsmynd.

Þegar svona stendur á, væri það ekki hróplegt glappaskot af þinginu, ef það gerði ekki alt sitt til þess að koma hjer upp einka lánsstofnun, sem væri með öllu útilokuð frá afskiftum flokkanna á þingi og í landinu?

Og munu menn ekki sjá, að sú stofnun gæti einmitt orðið til að veikja pólitíska braskið með bankana, grynna á foraðinu. Jeg hefi nú gert stutta grein fyrir atkvæði mínu og greiði þessari tilraun til stofnunar nýs banka atkvæði með sömu sannfæringunni um, að sú stofnun hlýtur að gera þessari þjóð gagn, ekki síður, og öllu fremur, en stofnun Íslandsbanka, því þessi nýi banki á ekki, eins og menn vita, að fá rjett til seðlaútgáfu, og fyrir þá sök verður stofnunin pólitískt óháð, og það hvetur mig meðal annars til þess að ljá þessu máli fylgi mitt.

Háttv. frsm. meiri hl. (SHK) hefir svarað hv. 5. landsk. þm. (JJ), en jeg vildi þó leyfa mjer að drepa á nokkur atriði í ræðu hans. Háttv. þm. láði Alþingi það mjög, að hfa veitt þessi tvö sjerleyfi, til járnsandsvinslu og saltvinslu, til að braska með í útlöndum, og taldi þetta sjerleyfi, sem hjer liggur fyrir, hliðstætt þeim. Jeg skal taka það fram, að jeg talaði og greiddi atkvæði á móti báðum þessum málum, er þau voru á döfinni, en jeg greiði hiklaust atkvæði með þessu máli, af því að jeg tel það þjóðarnauðsyn að fá einn banka í viðbót við þá, sem nú eru hjer.

Þá segir sami hv. þm. (JJ), að þeir, sem fái þessi sjerrjettindi, geti braskað með þau og grætt á því of fjár. Það er vitanlegt, að þessi hv. þm. er ókunnugur verslun og öllum venjum í þeim efnum. Eða hvort heldur hann, að nokkur maður gangist fyrir stofnun stórfyrirtækis, eyði til þess tíma og fje, án þess að taka nokkurt endurgjald fyrir? Það þekkist ekki í þessum heimi. Hver og einn vill fá sína fyrirhöfn borgaða, Jafnvel okkar alþjóðlegasta fyrirtæki, sem jeg vil ekki nefna, hefir ekki sloppið við skatt þennan. Síður en svo.

Efni dagskrár hv. 5. landsk. þm. (JJ) hefir nú verið fullsvarað. Það liggur í augum uppi, að ekki verður hægt að stofna bankann án þess að fje fáist, en eins og hv. frsm. meiri hl. (SHK) tók fram, fæst það ekki fyr en menn vita hvaða kostir þessu fyrirtæki verða gerðir og satt að segja finnast mjer þeir kostir sem frv. setur, fullharðir. Með því er lagður skattur á þetta fyrirtæki, sem hvorugur bankanna, sem fyrir eru, þarf að greiða. Getur þetta orðið allóþægilegur þröskuldur á vegi bankastofnunarinnar og jafnvel sá, að fyrir því komist bankinn ekki á fót. Hið eina rjetta var að breiða faðminn á móti þessum banka og veita honum sömu kjör og þeim, sem fyrir eru. Menn hafa sjeð, hvað veltufje hefir að segja fyrir þjóðina. Menn hafa sjeð framþróunina hjer á landi síðan 1905, sem má að miklu leyti þakka Íslandsbanka. Eins mun nú, ef þessi banki bætist við. veltufje landsins vaxa, og þar af leiðandi auður alþjóðar og möguleikarnir til að lifa í landi þessu.