11.05.1923
Efri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

92. mál, hlunnindi

Jóhannes Jóhannesson:

Álit hv. minni til. fjhn., sem hjer liggur frammi, getur ekki sannfært mig um, að vanhugsað sje að láta frv. þetta verða að lögum. Jeg legg áherslu á það með háttv. 2. þm. G.-K. (BK), að nauðsynlegt sje, eins og nú er komið, þegar meiri hluti Íslandsbankastjórnarinnar er skipaður af landsstjórninni og Landsbankinn er undir eftirliti þings og ríkisstjórnar. — og báðir bankarnir því orðnir pólitískir, — að koma á stofn ópólitískum banka.

Annað mál er það, að mjer finst minsta hlutafjeð, sem heimilað er samkvæmt frv. að stofna bankann með, of lítið. Tel jeg, að stofnfjeð megi ekki vera undir 3 milj. króna. Ennfremur vil jeg benda á, að í nál. hv. Nd., er áskorun til hæstv. ríkisstjórnar að nota ekki heimildarlögin nema vissa sje fyrir þátttöku þektra erlendra banka eða fjármálamanna til stofnunar bankans og til viðskifta handa honum erlendis, og vænti jeg fastlega, að hæstv. ríkisstjórn verði við þessum óskum.

Með sjerstakri áherslu á þetta atriði mun jeg greiða frv. atkv. mitt.