11.05.1923
Efri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

92. mál, hlunnindi

Jónas Jónsson:

Jeg ætla aðeins að mæla nokkur orð áður en máli þessu verður endanlega ráðið til lykta, en jeg mun ekki tala jafnítarlega og jeg mundi hafa gert undir venjulegum kringumstæðum, af því að jeg álít, eins og hv. 2. þm. S.-M. (SHK), að ræður muni hafa lítil áhrif nú. Hv. frsm. meiri hl. (SHK) tók fram í dag, eins og hann raunar hefir tekið fram áður, að hann álíti það ekki rjett að setja það fyrir sig, að ekki væri áður fengin vissa fyrir því, að nokkurt verulegt fjármagn sje á boðstólum, því að krafa, sem færi fram á það, væri mjög ósanngjörn, og jafnvel útilokað, að bankanum væri þá lífs von. Jeg er sannfærður um, að hv. 2. þm. S.-M. (SHK) getur vel hugsað sjer þann möguleika, að t. d. útlendur banki segði við okkur: Við erum til með að leggja fram 2. 3. 4 miljónir með ákveðnum skilmálum. Væru okkur þá boðnir kostir, er vjer gætum annaðhvort tekið eða hafnað, og væri málið þá vissulega mun auðveldara meðferðar, því að þá hefðum við vitað, við hverja var að eiga og hverjir ætluðu sjer að nota leyfið. Þennan möguleika hefir hv. meiri hl. ekki sjeð, eins og fram kom í ræðu hv. frsm. meiri hl. (SHK) síðast í dag, og niðurstaða hans er þess vegna ekki hugsunarrjett. En það verður eigi sjeð, að leyfisbeiðendur standi í neinu slíku sambandi við menn erlendis, sem hafi sagt, að þeir vilji leggja fram fje með föstum skilmálum. Hv. 2. landsk. þm. (SJ) svaraði ummælum hv. frsm. meiri hl. (SHK) um ósamræmið, sem kæmi fram í nál. hv. minni hl., með því að benda á, að hægt væri að selja arðsvonina: en jeg vil enn fremur benda á, að nokkuð er til, sem á dansk-þýsku heitir „Gründerforretning“. þ. e. húmbugsfjelagsstofnanir, eins og sum fossafjelögin okkar hafa verið. Forgöngumennirnir selja þá „rjettindi“ sín, stundum oft. Þeir græða, en almenningur tapar. Og það mun vera rjett, sem háttv. þm. Dala. (BJ) hjelt fram fyrir 3 árum, að mikið fje mætti hafa upp úr slíku leyfi. Ef jeg legði í vana minn að braska, mundi mig langa mjög mikið til þess að fara fram á slíkt leyfi mjer til handa. Þá álít jeg mjög hæpið, hvort rjett sje, að bankinn njóti skattfrelsis. Mjer vitanlega er það ekki síður neinna erlendra mentaþjóða, að nokkrir aðrir bankar njóti skattfrelsis en þjóðbankar, og svo oft lánsfjelög, af því að þau leigja út fje með lágum vöxtum. Þó nú að Íslandsbanka sje veitt skattfrelsi, þá sje jeg ekki ástæðu til að veita öðrum slíkum bönkum sömu rjettindi, heldur virðist mjer hyggilegra, að við temjum okkur að siðum erlendra mentaþjóða og látum alla banka, sem reknir eru sem gróðafyrirtæki, borga eftir getu til bæjarfjelags og landssjóðs. Bæði Reykjavík og landssjóður munu bíða mikið tap við þetta skattfrelsi, og því verður að vera um mikinn óbeinan hagnað að ræða, ef hægt er að sætta sig við að veita skattfrelsi ófæddum banka, sem enginn veit hvað kann úr að verða, ef hann fær einhvern tíma að sjá dagsins ljós. Framsalsmöguleikann tel jeg þó vera höfuðágallann á frv. Eina tryggingin, sem háttv. þing hefir fyrir því, að leyfinu verði vel ráðstafað, eru nöfn 5 manna, sem væntanlega eru allir góðir menn með miklum áhuga, en það ætti þó ekki að auka áhuga sumra annara fyrir þessu fyrirtæki, að 3 af upphaflegu stofnendum þessa bankaáforms, Ágúst Flygenring í Hafnarfirði. Ólafur Johnson stórkaupmaður í Reykjavík og Björn Þórðarson hæstarjettarritari, hafa dregið sig til baka, væntanlega sökum þess, að þeir sáu fram á, hversu afarörðugt og jafnvel ómögulegt mundi verða að útvega nægilegt fje og gera þetta að starfandi fyrirtæki. Vont væri það ennfremur, ef fyrirtækið kæmist fyrst á fót eftir að búið væri að framselja rjettinn útlendum gyðingum, sem enginn vissi deili á og engin trygging væri fyrir að færu vel með það vald, sem þeir fengju við framsal rjettarins, einkanlega af því, að mjer virðist frv., eins og það liggur fyrir, ekki heimila jafnítarlegt eftirlit af hálfu háttv. þings og nauðsyn þó kynni að krefjast.

Jeg get ekki á sama hátt og sumir aðrir háttv. þingmenn álitið það hættulegt, þó að Landsbankinn sje pólitískur, að því leyti sem hann er undir eftirliti bæði landsstjórnar og þings, og engu fremur tel jeg það hættulegt, þó að Íslandsbankastjórnin sje nú skipuð 2 tilsjónarmönnum frá landinu. Mjer kemur það einkennilega fyrir sjónir, að háttv. þingmenn skuli telja það ágalla á einhverjum hlut eða málefni, að það sje pólitískt, alveg eins og að eitthvað óhreint hljóti þá að tengjast við það. En sje það aftur á móti rjett, að pólitískt líf þessa þjóðfjelags sje óhreint, sem jeg ekki vil trúa að ósönnuðu máli, þá hlýtur það að stafa af því, að þjóðin sjálf sje óhrein, eða þá að minsta kosti þeir leiðtogar hennar, sem slíku halda fram. Jeg mundi því alls ekki telja það neinn galla, þó að banki þessi yrði einnig pólitískur, þ. e. háður eftirliti þingsins, ef hann kemst einhvern tíma á stofn, en hitt mundi jeg álíta mikinn galla, ef bankinn yrði einvörðungu háður erlendum mönnum og erlendu fjármagni, því að engin trygging er fengin fyrir því, að íslenskir menn eða íslenska stjórnin nái nokkrum yfirráðum yfir stofnun þessari. Það verður því ekki annað sjeð en að hreinasta fásinna sje að ætla stofnun þessari, sem rekin verður með erlendu fjármagni, undanþágu frá skattgreiðslu.