20.03.1923
Neðri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

83. mál, fræðsla barna

Flm. (Magnús Jónsson):

Þrátt fyrir andmæli háttv. 2. þm. N.-M. þarf jeg ekki að vera langorður í svari mínu. Það stendur auðvitað orð á móti orði hjá okkur, hvort gamla tilskipunin frá miðri 18. öld er enn í gildi. Skoðun hans er sú, að hún gildi enn, en jeg met eins mikils ummæli lögfróðra manna. er jeg hefi átt tal við um þetta efni, og segja þeir, að ekki komi til greina, að sú tilskipun sje enn í gildi. Vitanlega er þýðingarlaust fyrir okkur háttv. 2. þm. N.-M. (BH) að vera að deila um þetta hjer. Við erum báðir leikmenn í þessum efnum. Annars mun þessi háttv. þm. aðallega hafa staðið upp til þess að lesa upp póst úr ræðu eftir mig frá í hitteðfyrra og sanna með því, að jeg hefði breytt um skoðun síðan þá. En þarna hefir honum tekist að skjóta fram hjá markinu án þess að koma nærri því. Það, sem jeg sagði á þinginu 1921, er aðeins það, að meðan prestar hafa þá skyldu að staðfesta börn og kirkjan heldur í fermingarathöfnina, verða prestar að hafa eftirlit með því, að börnin fái þá þekkingu á kristindóminum, sem talin er nægileg undir fermingu. Jeg vona, að hv. þm. sjái, að hjer er um alt annað að ræða en almenna fræðsluskyldu presta, sem háttv. andmælandi minn (BH) vill láta þá hafa.

Þá vil jeg endurtaka það, sem jeg sagði í fyrri ræðu minni, að það er undir yfirstjórn fræðslumálanna komið, hvort sjerstakir prófdómendur verða skipaðir í fjölmennum og víðlendum prestaköllum, og einnig er það hún, sem ákveður það, hvaða prestaköll verði talin fjölmenn eða víðlend. Háttv. andmælandi minn veður því reyk, þar sem hann heldur því fram, að prestarnir geti heimtað sjerstaka prófdómendur þar, sem svona sje ástatt. Er og hætt við, að fræðslumálastjórnin verði spör á að nota þessa heimild, meðan prestar fá engin laun fyrir ómak sitt, og ekki einu sinni endurgreiddan ferðakostnað.

Þar sem svo var að heyra á háttv. 2. þm. N.-M. (BH), að hann nenti ekki að starfa að þessu máli í allshn., þá tek jeg aftur þá tillögu mína, að frv. verði, að lokinni umr., vísað til allshn., en legg til, að því verði vísað til háttv. mentmn., enda mun það eiga heima þar, þar sem það er um breytingu á fræðslulögunum.