02.05.1923
Efri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

83. mál, fræðsla barna

Guðmundur Ólafsson:

Jeg skil ekkert í því, að hv. 4. landsk. þm. (JM) skuli vera að tala um, að jeg hafi verið móðgaður og verið með slettur til hans. Jeg er mjer þess ekki meðvitandi, að jeg hafi haft nokkur óviðurkvæmileg orð. En þótt þessi hv. þm. sje að öllum jafnaði kurteis í ræðum sínum, þá hefir hann þó kannske verið búinn að leggja inn fyrir því, að svo hefði verið. Jeg sagði bara, að hann væri kunnari slíkum reikningum en jeg; það er ekki ólíklegt, að hann hafi kynst þeim í ráðherratíð sinni, og ekki er það mín sök, ef við þá eru bundnar leiðinlegar endurminningar fyrir hann, og því fæ jeg ekki sjeð, að það sje neitt ljótt, þótt jeg tæki háttv. þm. fram yfir mig í þessu efni. Jeg held því, að jeg þurfi ekki að taka neitt aftur af því, sem jeg hefi sagt. Það var ekki ætlun mín að banna honum að vera á móti þessu frv., og venjulega er það ekki tekið svo. Þótt skoðun einhvers háttv. þm. sje mótmælt. Jeg get tekið undir með honum, að mjer er þetta ekkert kappsmál, en mjer finst það sanngjarnt og til bóta, og því er jeg með því.