09.03.1923
Efri deild: 13. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

18. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Jónas Jónsson:

Frv. þetta var sent fjvn. til umsagnar um fjárhagshlið þess. Var meiri hl. nefndarinnar hlyntur því, að landið greiddi kostnaðinn, en nefndin var eigi öll sammála um það. Var jeg mjög hikandi um það atriði af ýmsum ástæðum. Jeg átti tal um þetta í gær við lækni, sem í fyrra átti sæti í þessari hv. deild, en er nú farinn hjeðan, landlæknirinn, og sagði hann mjer, að þá hefði komið til mála manna á milli að leggja fram frv. um þetta efni. En læknarnir í Ed. voru yfirleitt hikandi í málinu og hann kvaðst eigi hafa verið undir það búinn að leggja fram frv. um það sjálfur. Síðan hefi jeg átt tal um þetta við ýmsa lækna, og hafa þeir verið í miklum vafa um, hvort slíkt frv. kæmi að nokkrum verulegum notum.

Af þessum ástæðum tel jeg rjett að leita umsagnar Læknafjelagsins hjer í bænum, hvort það hafi trú á því, að hægt sje að útrýma sjúkdómum þessum hjer á landi, og hversu auðveldast verði að halda þeim í skefjum.

Á stjórnarfrv. er einn meinlegur galli, sem hv. nefnd hefir rjettilega bent á. Það ber sem sje með sjer greinilega tilraun sjerfróðra lækna til þess að komast á landssjóðinn. Hefir nefndin reynt að fyrirbyggja það, og er jeg henni þakklátur fyrir.

Jeg hefi hugsað mjer að koma fram með brtt. við 3. umr. þessa máls, þess efnis, að veittar væru 1–2 þúsund krónur til þess að fræða almenning um eðli kynsjúkdóma. Jeg hefi litla trú á löggjöf um þetta efni, en álít happadrýgra að reyna með þekkingu að fyrirbyggja mikla útbreiðslu sjúkdómanna. Jeg álít það hinn mesta barnaskap að halda, að hægt sje að útrýma sjúkdómunum hjer á landi, en hins vegar álít jeg það varða miklu, að fólk viti um og skilji hættu þá, sem af þeim stafar, og reyni að forðast hana. Virðist mjer frv. ganga í þveröfuga átt, að því leyti sem það gerir ráð fyrir, að baráttan móti kynsjúkdómunum verði öll í pukri, með leynd og á dulmáli.