09.03.1923
Efri deild: 13. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

18. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Það eru aðeins litlar athugasemdir, sem jeg vildi leyfa mjer að gera. Það gleður mig, að hæstv. forsrh. (SE) hefir fallist á allar þær brtt., sem nefndin fer fram á og hið læknisfræðilega snerta, nema þá einu, er lýtur að matreiðslustarfi. (Forsrh. SE: Jeg hefi fallist á það). Þá er það ekkert, sem á milli ber, nema ef vera skyldi það, að jeg vil, að sjúklingur, sem gengið hefir undir „kúr“ hjá lækni, fái hjá honum læknisvottorð um það, að hann smiti eigi. Meðan læknirinn getur það eigi, vil jeg, að ákvæðinu sje haldið strangt fram.

Hvað því viðvíkur, að yfirlýsingar sjúklinga skuli senda með reikningum læknanna, þá skal jeg geta þess, að jeg fyrir mitt leyti legg eigi svo mikla áherslu á það. Það, sem fyrir nefndinni vakti, var aðeins það, að hún taldi líklegt, að það mundi draga úr kostnaðinum. En hitt hefir nefndin eigi tekið til athugunar, að það væri hættulegt, að yfirlýsingarnar kæmu í stjórnarráðið, af því að þær kynnu að berast út þaðan.

Hvað kostnaðinum viðvíkur, þá skal jeg geta þess, að jeg tel það mjög mikilsvert atriði, hvort veita eigi sjúkrahúsvist eða eigi. Sænsku lögin hafa það þannig. Að mínum dómi vantar mjög mikið á, að talningin sje nægilega trygg, en talning ætti að fást með þessum lögum, og það er þó altaf nokkurs virði.

Jeg vil benda á, að nauðsynlegt er að taka afstöðu til 182. gr. hegningarlaganna í þessu sambandi og breyta henni. Hjer stendur, að læknir eigi að vitna í hegningarlögin, en það þýðir lítið að vitna til þessarar greinar, því hún nær aðeins til syfilis, en ekki til lekanda, sem er miklu útbreiddari og einnig stórhættulegur.

Þá vil jeg geta þess, sem jeg gleymdi áðan, að landlæknir mælti með frv. við nefndina, og eins munu flestir læknar vera því fylgjandi, og því óþarfi að skjóta málinu aftur til þeirra. Jeg var t. d. í fyrra staddur á fjölmennum læknafundi hjer í Reykjavík, þar sem þetta mál var til umræðu, og var þar mikill meiri hluti fundarmanna málinu sinnandi.