14.04.1923
Efri deild: 40. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (495)

18. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Jeg hefi litlu við það að bæta, sem jeg hefi áður sagt. En jeg get ekki fallist á það hjá hv. á. landsk. þm. (JJ), að semja eigi sjerstakan taxta fyrir hvert einstakt tilfelli. Og skil jeg ekki, hvernig háttv., þm. gat dottið slíkt í hug. (JJ). Jeg hefi ekki sagt það). Jú. hv. þm. sagði, að til þess væri ætlast, að stjórnin setti sjerstakan taxta í hverju einstöku tilfelli.

Þá var það eitt, sem hv. þm. (JJ) sagði, að hefði spilt frumvarpinu í hv. Nd., og það var að láta ákvæðið um borgun til sjerfræðinga standa, sem upphaflega stóð í 5. gr. frv., en var felt hjer niður. En hv. þm. stóð opið fyrir að koma með brtt. í þessa átt, því að málið var tekið út af dagskrá, einmitt með það fyrir augum að gefa deildarmönnum kost á að færa þetta aftur til sama máls. Hefði því vel mátt vera, að brtt. frá háttv. þm. hefði verið samþykt.

Það er alls ekki hægt að bera saman varnir gegn kynsjúkdómum hjer og í Þýskalandi, því að þar eru sjúkdómar þessir þjóðarplága. Er því ekki undarlegt, þótt gripið sje til allra ráða til þess að reyna að hindra útbreiðslu þeirra. En þrátt fyrir alla fræðslu og snild Þjóðverja í þessu, er það þó víst, að þeir eru einna verst settir í þessum efnum af öllum þjóðum heimsins.

Það er alveg rjett, sem hæstv. forsrh. (SE) tók fram, að það er heimilt eftir frv. þessu að láta fara fram kenslu um þessa sjúkdóma í sumum skólum. Og er það mikilsvert, sjerstaklega fyrir þá menn, sem eiga að verða farmenn.