08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (504)

18. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Frsm. allshn. Ed. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Jeg get ekki annað en látið í ljós undrun mína yfir því, að þetta mál skuli vera komið í Sþ. Háttv. Ed., og þá ekki síst allsherjarnefnd hennar, hefir sýnt háttv. Nd. svo mikla tilhliðrunarsemi um þetta mál, og hins vegar átt svo mikinn þátt í því að leiðrjetta þá ekki óverulega galla, sem voru á frumvarpinu upphaflega, að þess var fremur að vænta, að hv. Nd. gerði þetta ekki að deilumáli við Ed.

En þá er að líta á deilumálið sjálft.

Háttv. meiri hl. allshn. Nd. vill gera sjúklingi, sem kemur til læknis í trúnaðarerindum, að lagaskyldu að segja svo satt frá um holdlegar samfarir sínar eins og hann stæði fyrir rjetti, og leggur við því allhá viðurlög. Þetta nær að sjálfsögðu jafnt til kvenna og karla. Neiti sjúklingurinn að gefa þessa skýrslu, þá er hann orðinn brotlegur við lögin; sje þessi skýrsla að einhverju leyti röng, er hann líka orðinn brotlegur við þau.

Til þess að ekki fari á milli mála eftir á, sje jeg ekki betur en að læknirinn verði að bóka þessa skýrslu nákvæmlega í hvert skifti í læknajournal sinn, lesa hann upp fyrir sjúklingnum og heimta, að hann staðfesti hann með undirskrift sinni — ef hann þá er skrifandi. Sje um útlending að ræða, sem telur sig hafa smitast hjer á landi, verður hann víst helst að semja skýrsluna í læknajournalinn á því máli, sem sjúklingurinn talar eða skilur.

Þetta væru vond lög og ekki viturleg.

Lítum á það fyrst frá sjónarmiði sjúklinganna. — Um það er þá fyrst að segja, að það er viðurkent af rjettarmeðvitund nærri allra sannsýnna manna, að samfarir karls og konu sjeu og eigi að vera eitt hið mesta einkamál þeirra, svo að fá mál hafi jafnmikinn rjett á sjer í því efni sem þau. Er það þá svo undarlegt, þó sjúklingur oft og tíðum kveinki sjer við því að gefa um þetta skýrslu? Er þingið reiðubúið til þess að heimta það, t. d. af stúlku, sem tæld hefir verið af þeim manni, er hún unni, að hún láti ókunnugum lækni „í tje alla vitneskju sína um það efni“. eins og frumvarpsgreinin, sem hjer er um deilt, orðar það. Jeg held, að slík krafa væri ósæmileg harðýðgi, og jeg fyrir mitt leyti vil mjög ógjarnan láta heimta af mjer að taka slíka skýrslu.

Frumvarpið mælir svo fyrir, að ef læknir tekur sjúkling til meðferðar, sem nýlega hefir smitast hjer á landi, þá skuli hann grenslast eftir því vandlega, af hverjum og hvernig hann hafi smitast. Þetta er líka það, sem allir samviskusamir læknar gera og eiga að gera, og það er ekki nema gott, að það standi í lögum. Það er þá enn meira aðhald fyrir læknana, og fullnægi þeir þeirri skyldu sinni, komast þeir oft og tíðum fyrir það, hvaðan smitunin stafar, og geta þá komið í veg fyrir smitunarhættuna. Oft fá þeir ekki þessa vitneskju í fyrsta eða öðru viðtali, en fá hana þó, þegar sjúklingurinn hefir fengið meira og fastara traust til læknisins og lítur á hann eins og vin sinn og velgerðamann, sem hafi einlægan hug á því að hjálpa honum. Þetta er mál, sem á að vinnast með lipurð og góðsemi, en ekki með hótunum um lögreglukæru og fjesektir.

En það skal fúslega játað, að það er oft og tíðum alt annað en auðvelt fyrir lækni að komast fyrir hið sanna um þessi efni. Það er nefnilega margsannað af reynslunni og sálfræðilega ofureðlilegt, að sjúklingar með kynsjúkdómum segja lækni algjörlega skakt til um, hvenær þeir hafi smitast, vilja telja lækninum trú um það, að þetta hafi verið miklu fyr en það var í raun og veru. Af því hefir víst myndast latneska setningin „quivis syphilitieus mendax“ eða „quivis gonorrhoicus mendax“. Vitanlega eru undantekningar frá því, að svo sje, en reglan er þó æðialgeng; en eigi að fara að rekast í þessum málum með lögregluvaldi, þá hljóta þó allir að skilja, að það er afaráríðandi, að tímaákvörðunin sje nákvæm og að það getur valdið margháttuðum vafningum og óvinnandi örðugleikum að komast fyrir, hvað rjett er.

En hjer er líka önnur hætta, og hún er sú, að fólk sje haft fyrir rangri sök. Í minni tiltölulega litlu reynslu um þessi efni hefir það komið fyrir, jafnvel oftar en einu sinni, að jeg hefi verið sannfærður um, að sagt var algerlega rangt til um stúlkuna, sem átti að hafa valdið smituninni.

En mjer mun nú verða svarað því, að þetta komi málinu ekki mikið við, af því það sje, eða eigi að vera skylda sjúklingsins að láta lækninum þegar í tje allar upplýsingar, alla vitneskju sína um þessi efni. En jeg verð að svara þeim því, að þetta kemur málinu mikið við, af því að það er svo örðugt oft og tíðum að komast fyrir, hvað satt er um þessi efni, og af því að það eru svo sáralitlar líkur til þess, að þetta ákvæði bæti nokkuð úr þeim örðugleikum.

En jafnvel þó að sjúklingurinn segi lækninum þegar í stað alt satt og rjett um þessi einkamál sín, þá er ekki víst, að mikið verði ætíð á því að græða. Ef til vill getur sjúklingurinn alls ekki nafngreint þann, sem smituninni hefir valdið, eða — það sem verra er — fer alveg skakt með nafnið óviljandi, sem orðið gæti til mikilla óþæginda fyrir saklaust fólk.

Jeg hirði ekki um að telja hjer dæmi þess, hvernig þetta gæti valdið margskonar óþægindum og rangindum, en jeg leyfi mjer að fullyrða það og leggja áherslu á það, að læknirinn komist lengra með lipurð og gætni og góðsemi í því að afla sjer vitneskju um það, sem hann þarf að vita um þessi efni, heldur en með hótunum um sektir og lögregluaðstoð.

Grindin í þessum lögum, sem við höfum hjer til meðferðar, er eins og kunnug: er sniðin eftir sænskri fyrirmynd. Vegna þess. hve ýmsir staðhættir eru hjer ólíkir því, sem er í Svíþjóð, var ekki hægt að þýða þau lög, heldur varð að reyna að smíða utan á grindina úr íslensku efni, og hjá lagasmiðunum var þetta íslenska efni sumstaðar nokkuð kvistótt og sumt varla annað en fúasprek. Yfir þetta var svo málað, svo það liti betur út. Það, sem er nýmálað, er oft furðu ásjálegt í fyrstu, en þó hefir reyndar þingið mátt segja um sumt í þessum lögum eitthvað svipað því, sem skáldið segir um fallega hárið og hvítu tennurnar á stúlkunni:

hárið og tennurnar hvítu

hvorttveggja’ úr Reykjavík.

Þetta má víst líka segja um þetta deiluatriði.

Sænsku lögin virðast aftur vera öll úr mjög góðu og ábyggilegu efni, og mjer þykir vert að benda á það, að jeg minnist þess ekki, að nein setning í þeim sje þess efnis, sem hjer er verið að deila um. Mjer finst það líka mjög eðlilegt, því mjer þykir eðlilegt, að engin þjóð setji sjer lög um þetta.

En jafnvel þó það væri einhversstaðar í lögum, sem jeg efast mjög um, held jeg, að það væru mjög óhentug lög hjer í íslenska fámenninu, þar sem hver þekkir annan að heita má. Eigi þetta ákvæði að verða annað og meira en pappírsgagn, held jeg, að það gerði aðeins ógagn; ætti að fara eftir því, verði það óhjákvæmilegt, að það raskaði mjög þeim þagnargrundvelli og þeirri leynd, sem lögin gera ráð fyrir, en það gæti aftur orðið til þess, að menn leituðu sjer síður læknishjálpar en þeir ella mundu gera.

Jeg verð því að láta þess getið, að ef brtt. verður feld, sje jeg mjer ekki fært að greiða lögunum atkv. mitt, og jeg hygg, að svo fari um ýmsa hv. samdeildarmenn mína. Falli lögin þess vegna, þá eru það ekki við, heldur háttv. meiri hluti Nd., sem bregður fæti fyrir lögin.