20.04.1923
Neðri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

121. mál, varnir gegn berklaveiki

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg vildi geta þess um leið og frv. þetta heldur áfram, að það er borið fram fyrir þá sök, að ýnis sýslufjelög eru nú að örmagnast undir þeirri byrði, er lögin um varnir gegn berklaveiki leggja á þau. Án þess að fara nákvæmlega út í málið, skal jeg geta þess til leiðbeiningar fyrir væntanlega nefnd, að úr þeim 6 sýslum, sem jeg hefi fengið skýrslur frá, horfir málið svo við, að gjaldið er orðið frá kr. 1,40 upp í kr. 3,20 á hvern sýslubúa. Það er bersýnilegt, einkanlega þegar litið er til þess, að sjúklingum er altaf að fjölga, að innan skamms muni sýslufjelögin ekki fá neitt við þetta ráðið. Árið sem leið varð Norður-Múlasýsla að greiða 9434 kr. í þessu skyni, eða kr. 3,20 á hvern sýslubúa, eftir manntalinu 1920. Á sama hátt varð Dalasýsla að greiða 5596 kr., eða kr. 2,93 á hvern mann, og í Suður-Múlasýslu var öll upphæðin 14000 kr., eða kr. 2,70 á nef, eftir sama manntali. Þetta er eftir upplýsingum frá hlutaðeigandi sýslumönnum, og allir hafa þeir hnýtt við þeirri athugasemd, að fyrirsjáanlegt væri, að þetta mundi aukast mikið.

Annars sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta. Jeg býst við, að málið verði athugað í nefnd, og vona, að hún komist að þeirri niðurstöðu, að rjett og sanngjarnlegt sje að ákveða eitthvert hámark, með því líka að þetta má skoða sem sóttvarnarráðstöfun, en þær hvíla að lögum á ríkissjóði. Það gæti orkað tvímælis, hvort hámarkið er hæfilega ákveðið. Getur verið, að sýslufjelögin gætu lagt misjafnlega mikið af mörkum, en vitanlega er þó ekki hægt að hafa nema eitt hámark.