27.04.1923
Neðri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

121. mál, varnir gegn berklaveiki

Atvinnumálaráðherra (KJ):

Eins og stendur í greinargerðinni, þá er enn ekki fengin full reynsla fyrir því, hvernig lög nr. 43. 1921, um varnir gegn berklaveiki, muni reynast. Reyndar er sagt í greinargerðinni, að byrði þeirra sje farin að verða sumum hjeruðum alveg óbærileg. Jeg rengi það ekki og get vel trúað, að svo sje. en á hitt má líka minnast, að þau ætli að verða, og sjeu þegar orðin æðitilfinnanlegur baggi á ríkissjóði, eins og líka háttv. 2. þm. N.-M. (BH) tók fram í sinni ræðu. Jeg skal samt ekki deila um það, hvort landssjóður eigi að bera allan kostnaðinn eða ekki, þótt það sje skoðun mín, að ekki verði hjá því komist að láta hann að nokkru leyti hvíla á bæjar- og sveitarfjelögum.

Til skýringar því, hversu kostnaðurinn er orðinn gífurlegur, skal þess getið að á árinu 1922 hafa verið greiddar með tæringarveikum sjúklingum alls 128249 kr., og það sem af er þessu ári, eða til marsmánaðarloka, kr. 59774.00. Eins og eðlilegt er, fer tala þeirra sjúklinga, sem eru styrktarhæfir eftir 14. gr., altaf hækkandi bæði í sjúkrahúsum úti um land, á Vífilsstöðum, í sjúkrahúsum hjer í bænum og með ljóslækningum, þar sem læknishjálpin hefir verið greidd, enda þótt sjúklingurinn hefðist við hjer í bænum utan sjúkrahúss.

Útgjöldin hafa einnig farið mjög vaxandi vegna laga nr. 61. 1921, sem heimila hverjum hreppi að hafa 4 sjúklinga í sjúkrahúsi á kostnað ríkissjóðs. Þetta gildir jafnt um alla hreppa, án tillits til mannfjölda. t. d. jafnt fyrir Grímsey, sem hefir um 100 íbúa, og Svarfaðardal, sem hefir um 1200. Þetta er misrjetti, sem þarf að kippa í lag. Það má kallast hart, að fjölmennustu sveitirnar megi einungis senda 4 sjúklinga eins og þær mannfæstu, og að það sama skuli gilda um Reykjavík eins og til dæmis Seltjarnarneshrepp. Nú er það farin að verða alvenja, að hreppum sje skift í tvo hreppa, og má vel vera, að það sje eitthvað gert með tilliti til þessa. Að minsta kosti er það álit mitt, að oft hafi slík skifting verið næsta óheppileg. Hefir það verið tekið til yfirvegunar í landsstjórninni, hvort ekki mundi vera rjett að breyta núgildandi lögum á þann veg, að hjer eftir verði tala sjúklinganna miðað við fólksfjöldann í hverju sýslu- og bæjarfjelagi. Veit jeg, að landlæknir er hlyntur slíkri breytingu á l. nr. 61. 1921. en býst þó ekki við, að til þess verði hugsað nú. Aftur á móti er það sennilegt, að frumvarp í líka átt verði lagt fyrir næsta þing.

Hvað snertir gjaldsákvæðið í frv., þá þykir mjer sæmilegt, að farinn sje þar meðalvegurinn, t. d. að samþykt sje varatillaga háttv. þm. Dala. (B.J) um 2 kr. gjald.