27.04.1923
Neðri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

121. mál, varnir gegn berklaveiki

Magnús Pjetursson:

Háttv. 2. þm. N.-M. (BH) gat þess, að allshn. hefði fyrir tveim árum viljað vísa berklavarnafrv. til álits sýslunefnda, og taldi vel farið, ef svo hefði verið gert. En jeg verð að halda því fram, að það, sem síðan hefir fram komið, bendi ekkert í þá átt, að það hefði verið rjettara af nefndinni. Því þó svo hefði verið gert, þá er það augljóst, að sýslunefndirnar gátu ekki gert sjer neina ljósa grein fyrir byrðinni, sem á þær lagðist með lögunum, á meðan reynslan var enn ekki farin að sýna neitt um það. En jeg skal taka það fram, að berklavarnanefndin hefði verið fúsust að fylgja þeirri stefnu, að láta sem minst af kostnaðinum koma á aðra en ríkissjóð, því hún leit á berklavarnirnar sem hverjar aðrar sóttvarnir, og hefði það því verið sjálfsagðasta leiðin að láta ríkið kosta þær. En nefndin sá sjer það ekki fært, samt sem áður, að ganga svo langt. En það er síður en svo, að jeg sje mótfallinn breytingunni.

Hæstv. atvrh. (KIJ) vil jeg þakka fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf viðvíkjandi kostnaðinum, og það gladdi mig að heyra, að hann fer í vöxt. Því það sýnir, að lögin eru farin að verka. En jeg get ekki varist því að láta í ljós þá skoðun mína, að það sje hæpið að fara eftir fólksfjölda sýslnanna eingöngu. Að minsta kosti efa jeg, að það yrði ódýrara fyrir ríkissjóð. Eftir gildandi reglum hefir t. d. Reykjavík heimild til sjúkravistar á kostnað ríkissjóðs fyrir fjóra sjúklinga, en jeg býst við, að þeir yrðu nokkuð margir, ef ákvæðinu yrði breytt á þann hátt, sem hæstv. ráðherra (KIJ) gerir ráð fyrir.