27.04.1923
Neðri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

121. mál, varnir gegn berklaveiki

Frsm. (Björn Hallsson):

Nokkru af því, sem jeg þurfti að svara háttv. þm. Dala. (BJ). hefir þegar verið svarað af 1. þm. S.-M. (SvÓ), svo að jeg get sparað mjer það. Mjer dettur ekki í hug að neita því, að sum sýslufjelög verði harðara úti í þessu efni en önnur, og við því verður aldrei gert fyllilega. Samt sem áður hefir það ekki þótt fært til þessa að taka þetta alt upp á ríkissjóðinn, en í rauninni er meir og meir verið að stefna að því marki að gera alt landið að einni framfærslusveit, og mun það þykja orka mjög tvímælis, hvort slíkt sje rjett braut. Að vísu er það nauðsynlegt að útrýma berklaveikinni, og kostnaðurinn af þessum ráðstöfunum fer líka dagvaxandi,

Hæstv. atvrh. (KlJ) hefir nú upplýst að árið sem leið hafi verið greiddar 128 þús. kr. til varnar berklaveiki, og nú þennan fyrsta ársfjórðung þessa árs um 60 þús., svo þetta eru engar smáupphæðir, sem veltur á. Er ekkert um það að segja, ef árangur sjest verulegur, sem vænta má að sje. Jeg hefi allgóðar heimildir fyrir því, að á Vífilsstöðum komist nálega allir sjúklingar undir ákvæði berklalaganna, og gefur það bendingu um, að lögin sjeu ef til vill misbrúkuð, því að varla eru alir fátækir, sem þangað lenda, og væri ekki ólíklegt, að sumir gætu borgað fyrir sig sjálfir.

Út af till. háttv. þm. Dala. ( BJ) skal jeg segja það fyrst og fremst, að jeg er auðvitað ekki að lá honum það, þótt hann flytji þetta eftir tilmælum kjósenda sinna. En geta má þess þó í þessu sambandi, að jeg átti nýlega tal um málið við sýslumann Dalamanna af hendingu, og taldi hann, að 2 kr. væri sanngjarnt.

Háttv. þm. Str. (MP) sagði, að það gleddi sig, hvað mikið hefði verið borgað til berklavarnanna, því það sýndi nauðsyn laganna og það, að þau kæmu að gagni. Jeg skal ekkert deila við hann um þetta, en vísa til þess, sem jeg hefi áður sagt, að jeg hafi nokkra tilhneigingu til þess að halda, að smogið sje í gegnum möskva laganna. Annars skal jeg ekki fara að vekja upp neinar gamlar væringar út af þessu máli við þennan háttv. þm. (MP), og get svo lokið máli mínu.