27.04.1923
Neðri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

121. mál, varnir gegn berklaveiki

Bjarni Jónsson:

Jeg verð að leiðrjetta eitt atriði í ræðu hv. 1. þm. S.-M.(SvÓ). Jeg sagði ekki, að meiri sýking væri á þeim stöðum, þar sem fólk safnaðist saman til atvinnu, en annarsstaðar, en hitt sagði jeg, að ef sýking kæmi þar upp, breiddist hún fljótar út þar en annarsstaðar. Og það er í rauninni hepni, að slíkt hefir ekki komið fyrir. t. d. að skeiðríðandi tæring legðist á Siglufjörð, þar sem menn liggja stundum úti svo að segja eins og hundar. — Annars kemur það mjer nokkuð á óvart, hvað hjer virðist ætla að reynast erfitt að koma fram rjettu máli. Það er þó bersýnilegt, að hjer er um ríkisnauðsyn að ræða, og gjöldin eiga því að leggjast jafnt á alla landsbúa.

Annars þarf jeg fáu að svara. Mjer þótti að vísu undarlegt það, sem haft var hjer eftir sýslumanni Dalamanna, þó það haggi reyndar ekkert því, sem jeg hafði sagt. En hann var einmitt sjálfur fundarstjóri á fundinum, þar sem þetta var samþykt, og er þess ekki getið, að hann hafi gert þar neinn ágreining.