19.03.1923
Neðri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

24. mál, fjáraukalög 1922

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg tek undir það með fjármálaráðherra, að það var ekkert efni fyrirliggjandi í fjáraukalög fyrir yfirstandandi ár, nema tvær tillögur, sem eins gátu komið fram í fjáraukalögum þessum, því reikningnum fyrir 1922 verður ekki lokað fyr en í lok þessa mánaðar. Þess vegna var engin ástæða til að bera fram sjerstök fjáraukalög fyrir 1923. Jeg var líka, eins og hæstv. stjórn í fyrra, hræddur við það að sleppa þeim fyrir þingið. Er og í ársbyrjun ekki hægt venjulega að sjá fyrir, hverjar aukagreiðslur kunni að koma til greina á því ári, og þó fylgt hefði verið uppteknum hætti og tvenn fjáraukalög látin koma fyrir þingið, þá er ekki þar með sagt að fyrirbygt sje að ekki verði farið út fyrir þau lög líka.

Vil jeg svo stuttlega víkja að því er mig snertir sjerstaklega. Það var minst á styrkinn til frjettastofu Verslunarráðsins, en sá styrkur er veittur af fráfarinni stjórn í janúar f. ár, og er mjer því óviðkomandi. Nú kom nýlega beiðni til mín um samskonar styrk frá Verslunarráðinu, en jeg vísaði henni til þingsins. Hvað viðvíkur því, að nauðsynlegt sje að hafa þessa frjettastofu, þá má geta þess, að skýrslur um markaði og markaðshorfur berast hingað iðulega frá íslenska sendiherranum í Kaupmannahöfn, og mun hann ekki láta undir höfuð leggjast að tína til flest það, er máli skiftir í þeim efnum, og eru þessar skýrslur vanalega sendar Verslunarráðinu.

Þá telur nefndin vafasamt að veita fje til jarðabóta á Mosfelli, til undirbúnings nýbýla. Nú er það alment skoðun manna, að heppilegt sje að gera sem mest til þess að rækta landið og taka fyrir til þess þau landflæmi, er best þykja til þess fallin. Og þar sem nú á ekki í rjettu lagi að veita Mosfell aftur, en þar hins vegar stór landflæmi, er liggja vel við ræktun, sem prestinum, þó Mosfell yrði veitt aftur, yrði engin eftirsjón að, þá þótti allra hluta vegna heppilegt að gera tilraunir þar, enda var Búnaðarfjelagið með í ráðum og bauðst til að leggja fram af sínu fje fyrir helmingi kostnaðarins. Er og þessari jörð vel í sveit komið og þúfnabaninn nálægur, en hins vegar aldrei meiningin að fara langt í þessu efni, fyr en reynsla væri fengin.

Þá kem jeg að brimbrjótnum í Bolungarvík og mun reyna að rökstyðja ástæður stjórnarinnar fyrir fjárveitingunni til hans. Beiðni um hana kom fram um mánaðamótin ágúst og sept., úr þremur áttum, og var þess þá jafnframt getið, að ekki væri unt að halda verkinu áfram, nema styrkur fengist, en hætta á því, að verkið mundi alt ónýtast, ef framhaldsstyrkur fengist ekki. Fyrsta erindið var frá oddvita Hálshrepps. Hann benti á, að hreppurinn hefði nýlega tekið afarstórt lán, og síðan viðbótarlán til þessa, en þó mundu enn þú vanta um 16 þús. kr. til þess að fullgera verkið. Þetta var vitanlega alveg satt, og mun brjóturinn alls hafa kostað um 58 þús. kr., og því farið geysilangt fram úr áætlun.

Þar næst kom símskeyti frá danska verkfræðingnum, sem að verki þessu starfaði í sumar, með samskonar tilmæli og jeg gat um áðan, og loks hefir verkfræðingur Krabbe, sem gerði áætlanir allar, farið fram á hið sama. Samdóma ummæli þessara beggja verkfræðinga urðu því að vega svo mikið, samfara eindreginni ósk og nauðsyn hreppsins, að stjórnin veitti þennan viðbótarstyrk. Að vísu má kannske segja, að hægt hefði verið að láta sjer nægja að veita þetta sem lán til hreppsins. En sennilega hefði það komið í sama stað niður, þegar fram í sótti, því þá hefðu komið tilmæli um uppgjöf lánsins.

Hvað viðvíkur styrknum til Guðbrands Jónssonar, þá skal jeg geta þess, að hann var settur inn í frumvarpið samkvæmt meðmælaskjali tíu hv. þingmanna. Jeg skal að vísu ekkert um það segja, hvort það er rjett af þingmönnum yfirleitt að gefa slík meðmæli eða bindandi loforð, en hitt verð jeg að segja, að það má ekki minna vera en að slíkum meðmælum eða áskorunum fjölda þingmanna sje sá sómi sýndur að fara eftir þeim í tilfellum eins og þessum. Það var einnig álitið, að útgáfa bæklings eins og þessa gæti haft örvandi áhrif á viðskifti Þýskalands og Íslands, og því væri upphæðinni í sjálfu sjer vel varið.

Að því er snertir Breiðafjarðarbátinn, er þar nokkuð öðru máli að gegna, því jeg hafði þar persónulega talsverða löngun til þess að koma því máli strax til hjálpar og þeim mönnum, sem skaðan hafa á útgerðinni. Því máli er sem sje þannig varið, að nokkrir menn standa þar í persónulegri ábyrgð fyrir lánsfjenu til bátins, af því að þeir voru í sýslunefnd. En skuldin er um 54 þús. kr., og geta hv. deildarmenn farið nærri um það, að þessir menn yrðu að sjálfsögðu gjaldþrota, ef gengið yrði að þeim. En þar sem bátur þessi hefir haldið uppi góðum flutningum á Breiðafirði, til hagræðis fyrir alla þar um slóðir, virtist heldur ekki nema sanngjarnt, að ríkið styrkti hann eitthvað. (HK: Það fer fjarri því, að allir Breiðfirðingar sjeu ánægðir með ferðirnar). Getur vel verið, að svo sje: mjer er málið ekki svo kunnugt, enda sjaldan hægt að gera alla ánægða. En þrátt fyrir allar þessar áslæður, tók jeg samt ekki fjeð til þessa. aðeins af virðingu fyrir þingræðinu, og álít að í sama stað komi, þótt upphæðin verði færð á væntanlegt fjárlagafrumvarp nú.