19.03.1923
Neðri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

24. mál, fjáraukalög 1922

Magnús Guðmundsson:

Mjer skildist háttv. frsm. (MP) láta í veðri vaka, að helmingur þeirra fjárupphæða, sem ræðir um í frv. þessu, væri stofnaður af fyrverandi stjórn. Jeg hefi verið að leita í frv., en ekki getað fundið nema 2 upphæðir, sem svo er ástatt um. Önnur, er varið var til að bæta markaðshorfur, og hin til að reisa á ný íbúðarhús á Mælifelli. Var það gefið, að ríkisstjórnin varð þar, sem landsdrottinn, að reisa á ný hinn brunna bæ, því að slíkt er skylt samkvæmt ábúðarlögunum. Jeg skal að vísu játa, að dugað hefði timburhús og hefði það orðið kostnaðarminna en steinhúsið, en enst hefði það þá þeim mun skemur. Hitt er engum vafa undirorpið, að húsið varð að reisa, því ekki gat ríkið krafist þess, að klerkur byggi undir berum himni.

Jeg verð að láta í ljós ánægju mína yfir því, að hæstv. stjórn hefir nú viðurkent, að rjett hafi verið af fyrverandi stjórn að leggja ekki fram nein fjáraukalög í fyrra. Það hefir þó kveðið við annan tón í stjórnarblaðinu undanfarið, og lævísi þeirrar stjórnar verið kent um, að svo varð eigi. Það var því mjög notalegt að fá skýra yfirlýsingu hæstv. stjórnar sjálfrar í þessu efni.

Það er því óneitanlega skemtilegt fyrir mig að hlusta á það hjer, að hæstv. stjórn er að rífa niður kenningar síns eigin blaðs, og betri viðurkenningar get jeg ekki óskað mjer, því að enginn mundi álíta, að stjórnin setji blað sitt í gapastokkinn að nauðsynjalausu.

Jeg skal svo víkja aðeins örfáum orðum að brtt. Háttv. þm. Barð. (HK) og undirstrika það, sem hann sagði um það efni. Hjeraðsbúar hafa orðið að fara langa leið til að leita sjer lækninga, sökum fjarveru læknisins, og liggur í augum uppi, að hann sje skyldastur til að borga þann kostnað, þar sem hann hefir fengið sín föstu laun þann tíma. En þar sem hann hefir farið með leyfi landlæknis, þá er ekki hægt að hafa þetta fje af honum með málssókn. — og góðfúslega vill hann ekki borga það. Mjer finst því eðlilegast, að hið opinbera greiði þetta fje, og getur það svo krafist þess af lækninum. Er hægðarleikur að halda eftir af launum hans því, sem það nemur. Má það að mínum dómi ekki verða að venju, að embættismenn fari á burt á þennan hátt, hirði laun sín eftir sem áður og gjaldi svo ekkert af kostnaðinum, sem þeir með því baka þeim mönnum, er þeir voru skyldir að veita þjónustu sína.

Mjer finst því þessi brtt. á miklum rökum bygð, og furðar mig á því, að háttv. fjvn. skuli ekki hafa fallist á hana.